Hagnýtar upplýsingar

Leyfi nemenda

Forráðamenn nemenda skulu tilkynna veikindi, áður en kennsla hefst, í síma 464-6140 eða á netfangið skoli@borgarholsskoli.is.

Leyfi í tvo daga geta forráðamenn sótt um til umsjónarkennara með tölvupósti. Þegar óskað er eftir leyfi í 3 daga eða lengur skal gera það með því að smella á sækja um leyfi á forsíðu heimasíðu skólans.

Öll röskun á námi nemandans sem hlýst af umbeðnu leyfi er á ábyrgð foreldra /forráðamanna samkvæmt lögum nr. 91/12. júní 2008.

Umferðaröryggi

Innkeyrsla og bílastæði eru norðan við skólann. Starfsmannabílastæði eru m.a. við Skólagarð. Óheimilt er að aka inn á skólalóð á skólatíma nema aka þurfi veikum eða  hreyfihömluðum í skólann, flytja vörur o.s.frv. Foreldrar þurfa að velja með yngri börnum heppilega gönguleið í skólann. Nemendur eru á ábyrgð forráðamanna sinna á leið í og úr skóla.

Skólamáltíðir

Nemendum stendur til boða að kaupa máltíðir í hádegi fimm daga vikunnar í mötuneyti skólans. Foreldrar skrá nemendur í mötuneyti fyrir allan veturinn en uppsögn verður að berast fyrir 20. hvers mánaðar ætli nemandi að hætta í mötuneytinu. Nemendur sem ekki kaupa skólamáltíð borða hádegisnestið sitt í mötuneytinu. Matseðill hvers mánaðar er birtur  á heimasíðu skólans. Skólamáltíðir eru niðurgreiddar af sveitarfélaginu.

Fjármunir

Nemendur hafi ekki með sér fjármuni í skólann nema nauðsyn krefji og beri þeir þá sjálfir ábyrgð á þeim.

Fatnaður

Fatnaður og skófatnaður á að vera vel merktur sem og aðrar eigur nemenda.

Umgengni

Við viljum hafa skólann fallegan og vel um hann gengið. Fara skal úr útiskóm í forstofum.

Mentor

Skólinn notar Mentor gagnagrunn. Með aðgangsorði sem skólinn útvegar geta forráðamenn m.a. fylgst með ástundun, námsáætlunum og námsmati barna sinna.

Neyðarkort

Í gagnagrunni skólans (Mentor) eru nöfn forráðamanna nemenda skráð, auk nafns sem forráðamenn gefa upp, náist ekki í þá, ef slys, bráðaofnæmi o.fl. ber að höndum.

Teymishópar

Nemendum er skipt eftir árgöngum í teymi. Þegar deildir eru fleiri en ein á hverju teymissvæði áskilur skólinn sér rétt að færa nemendur milli deilda ef fagleg rök hníga að því.
Stefna skólans er teymisvinna og teymiskennsla í því skyni að efla félagsleg tengsl,  takast á við hegðun,  námsvanda o.fl.

Slys

Við minniháttar slysum fá nemendur aðhlynningu hjá skólahjúkrunarfræðingi eða öðru starfsfólki skólans. Þegar um alvarleg slys er að ræða er farið með nemendur á heilsugæslustöð og haft samband við foreldra eða þann aðila sem skráður er á neyðarkort. Starfsmaður, sem verður vitni að alvarlegu slysi nemanda útfyllir þar til gert eyðublað hjá ritara,  m.a. tryggingarskýrslu.

Tryggingar

Norðurþing slysatryggir öll börn í Borgarhólsskóla. Tryggingin gildir á leið í og úr skóla og á meðan barnið er í skólanum eða á ferðalögum á vegum hans. Skólinn greiðir kostnað sem hlýst af ferðum nemenda á slysavarðsstofu þurfi þeir þangað vegna meiðsla á skólatíma.

Rýmingaráætlun

Starfsfólk starfar eftir rýmingaráætlun vegna bruna og jarðskjálfta.

Gæsla

Skólaliðar og stuðningsfulltrúar annast m.a. gæslu og aðstoð við nemendur  í frímínútum og hléum innan og utandyra. Í íþróttahúsi og sundlaug annast starfsfólk íþróttamannvirkja eftirlit og baðvörslu ásamt öðrum störfum. Stuðningsfulltrúar aðstoða nemendur eftir skilgreindum þörfum. 

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð er ákveðinn hópur sem starfar innan skólans samkvæmt grunnskólalögum.
Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar við gerð framkvæmdaáætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.
Í nemendaverndarráði starfa, skólastjóri, deildarstjóri sérkennslu, sem annast fundarstjórn og undirbúning funda, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur.
Ráðið kallar viðkomandi starfsmenn skólans, forráðamenn og sérfræðinga til fundar eftir þörfum.

Tún

Félagsmiðstöðin Tún er starfandi í góðu samstarfi við skólann.

Félagsþjónusta Norðurþings

Undir þessa  þjónustustofnun heyra tveir þjónustuþættir, félagsþjónusta, þjónusta við fatlaða og Skólaþjónusta. Félags og skólaþjónustan annast lögboðna stoðþjónustu við nemendur, foreldra og starfsmenn skólans.
Símanúmer er 464-6100 og heimasíða: http://felagsthjonusta.nordurthing.is/

 

Heimsóknir nemenda og skólavist

Fyrrverandi nemendur skólans á grunnskólaaldri geta óskað eftir að koma í heimsókn og dvalið í skólanum í einn dag. Forráðamenn hafi samband við skólastjórnendur.

Nemendur sem eiga forráðamenn með lögheimili í Norðurþingi geta sótt um skólavist í Borgarhólsskóla. Það þarf að gera formlega með samtali við skólastjórnendur.

 

Stefna Borgarhólsskóla og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni í starfsmannahópi.

Markmið stefnu Borgarhólsskóla er að samvinna alls starfsfólks á öllum stigum starfseminnar sé jákvæð og uppbyggjandi, fólki líði vel, upplifi öryggi og jafnrétti. Stefna og viðbragðsáætlun þessi er frekari útfærsla á því markmiði. Það er stefna Borgarhólsskóla að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum, hvort heldur er á vinnustaðnum eða utan hans. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi verða undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum er jafnframt óásættanleg. Stefnuna má finna HÉR.

 

Um ábyrgð á tölvupósti / Email disclaimer