- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Árið 1896 var fyrst byggt sérstakt hús fyrir barnafræðslu á Húsavík, áður hafði sú fræðsla farið víða fram í hreppnum t.d. í prestbústaðnum og kaupmannshúsinu. Í þessu húsi var einnig þinghús hreppsins. Unglingaskóli tók til starfa um 1906. Nýtt skólahús var svo reist við Borgarhól sumarið 1908 og tekið í notkun í nóvember sama ár. Fluttu barnaskólinn og unglingaskólinn í nýja húsnæðið. (Þetta skólahús stendur nú við Stóragarð 6 og er nýtt sem íbúðarhús). Á þessum árum voru nemendur Barna-skólans rúmlega sextíu og kennt í þremur bekkjardeildum. Fljótlega fór að gæta þrengsla og fór ýmis kennsla fram annars staðar í bænum. Eins og áður hefur komið fram var Unglingaskólinn í sama húsnæði, tveir skólar voru því undir sama þaki og störfuðu sömu kennarar oft í báðum skólum.
Gagnfræðaskóli Húsavíkur hóf starfsemi 1945 og tók við af unglingaskólanum. Skólinn var fyrst í gistihúsinu Garðarshólma með tvær stofur á leigu. Nemendur voru 36 í tveimur bekkjardeildum. Árið 1945 keypti Húsavíkurhreppur Garðarshólma og var húsið alfarið nýtt undir Gagnfræðaskólann. (Hús þetta stendur nú við Stóragarð 4 og er íbúðarhús). Skólaárið 1950-51 voru 130 nemendur í sex bekkjardeildum í Barnaskóla Húsavíkur og fjölgaði stöðugt næstu árin.
Árið 1960 var nýtt skólahús tekið í notkun og fluttu bæði Barna- og Gagnfræða-skólinn í húsnæðið. Barnaskólinn notaði sex skólastofur en Gagnfræðaskólinn fjórar. Kennarastofa og verknámsaðstaða voru samnýttar. Á árunum 1972-1974 flutti Gagnfræðaskólinn í nýtt húsnæði sérstaklega byggt undir starfsemi hans rétt við Barnaskólann. Það húsnæði hýsir nú Framhaldsskólann á Húsavík.
Hafist var handa við að byggja við Barnaskólann árið 1990, fyrst var byggð stjórnunarálma með aðstöðu fyrir kennara, bókasafn skólans, Tónlistarskóla Húsavíkur og fleira. Í öðrum áfanga voru meðal annars byggðar almennar kennslustofur og raungreinastofur. Þessu verki lauk árið 1998.
Árið 1992 fékk Barnaskóli Húsavíkur nafnið Borgarhólsskóli og varð smám saman að heildstæðum grunnskóla með nemendur í 1. 10. bekk. Nemendur 10. bekkjar voru fyrst brautskráðir frá Borgarhólsskóla vorið 1994. Breytingum á list- og verknámsaðstöðu í skólanum var að mestu lokið haustið 2000. Í upphafi skólaárs 2001 -2002 var nemendum í fyrsta skipti boðið að kaupa heitan mat í hádegishléi. Í skólabyrjun haustið 2003 lauk framkvæmdum við fyrsta hluta skólalóðar. Búið er að malbika svæðið framan við nýja anddyri að austanverðu, þar sem yngstu nemendur ganga um, og setja upp leiksvæði og leiktæki á lóðinni. Vandað var til verksins og standast leiktækin öryggiskröfur og þeim haganlega fyrir komið. Einnig var ný tölvustofa tekin í notkun með fullkomnum tækjum. Bætti þetta mjög aðstöðu til kennslu í tölvu- og upplýsingamennt.