Mat á skólastarfi

Hér verða birt öll þau opinberu gögn sem viðkoma mati á skólastarfi Borgarhólsskóla. 

Um mat og eftirlit sveitarfélaga gildir ákvæði laga um leikskóla nr. 90/2008 og ákvæði laga um grunnskóla nr. 91/2008.

Í 35. grein grunnskólalaga og 17. grein leikskólalaga segir um mat og eftirlit.

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í skólum er að:

    • Veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda.
    • Tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.
    • Auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum.
    • Tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

 

Skv. 37. gr. grunnskólalaga eiga sveitarfélög að sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Þá ber sveitarfélögum að fylgja eftir innra og ytra mati svo það geti leitt til umbóta í skólastarfi.
 

Innra mat

Hver skóli þróar aðferðir sem taka mið af sérstöðu skólans til að meta hvort og að hve miklu leyti markmiðunum hefur verið náð. Aðferðir við innra mat taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni. Innra mat Borgarhólsskóla byggist á kerfisbundinni aðferð sem lýst er í skólanámskrá. Í starfsáætlun skólans fyrir hvert skólaár kemur fram hvaða þættir eru viðfangsefni innra mats.

Innra mat Borgarhólsskóla er markvisst fléttað saman við daglegt starf og nær til allra þátta skólastarfsins, s.s. stjórnunar, kennslu, námskrafna, námsmats og samskipta innan og utan kennslustofunnar. Lögð er áhersla á virka þátttöku starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra hagsmunaaðila eftir því sem á við. Til að leggja megi raunhæft mat á skólastarfið þarf að afla upplýsinga um það með margvíslegum hætti. Á grundvelli fjölbreyttra gagna er lagður grunnur að innra mati skólans. Þær upplýsingar og þau gögn, sem eru lögð til grundvallar matinu, taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni.

Lagt er mat á markmið og leiðir með reglubundnum hætti. Innra mat veitir upplýsingar um styrkleika í starfi skólans og það sem betur má fara. Með hliðsjón af niðurstöðum innra mats eru umbætur skilgreindar og skipulagðar. Borgarhólsskóli birtir opinberlega upplýsingar um niðurstöður innra mats og áætlanir um umbætur. Persónulegar upplýsingar eru þó undanþegnar birtingu.

 

Fulltúrar matsteymis skólaárið 2021-2022

Arna Ásgeirsdóttir, fulltrúi foreldra.

Árný Björnsdóttir, fulltrúi starfsfólks.

Guðrún Kristinsdóttir, fulltrúi kennara

Þórgunnur R. Vigfúsdóttir, fulltrúi skólastjórnenda

Nanna Möller, fulltrúi kennara & verkefnastjóri

Vantar, fulltrúi nemenda

 

Starfsvið & viðmið

Innra matsteymið sér um skipulag matsins og ber ábyrgð á framkvæmd þess, allt frá
skipulagningu til eftirfylgni við umbætur, í samráði við skólastjóra.

    • Teymið skiptir með sér verkum og leiðir verkefnastjóri starf þess.
    • Matsteymið virkjar aðra með sér í matinu.
    • Matsteymið heldur reglulega fundi og hefur starfsáætlun hvers árs til viðmiðunar.

Greina þarf niðurstöðu í styrkleika og þætti sem þarfnast umbóta. Þá er gerð umbótaáætlun, henni komið í framkvæmd og metið hvernig til hefur tekist. Niðurstöður þarf að birta opinberlega, t.d. á heimasíðu skólans. Þær mega þó aldrei vera persónugreinanlegar.

 

Matsferli

  1. Skipulagning matsins
  2. Gagnöflun samkvæmt áætlunum.
  3. Greining gagna, mat lagt á niðurstöður.
  4. Niðurstöður teknar saman í stutta greinargerð.
  5. Umbótaáætlun gerð og framkvæmd, umbótum fylgt eftir og þær metnar.

 

Áætlanir, framkvæmd og skýrslur

Langtímaáætlun

Umbótaáætlun

Innramatsskýrsla 2021

Matsáætlun 2021-2022

Innramatsskýrsla 2022

Innramatsskýrsla 2023

 

Gæðaviðmið í vinnslu

    • Stjórnun & fagleg forysta
    • Nám & kennsla
    • Innra mat

 

Ytra mat

Ytra mat felst m.a. í úttektum á skólastarfi í heild eða einstökum þáttum þess, stofnanaúttektum, úttektum á námsgreinum og námsþáttum og eftirliti með innra mati skóla. Menntamálastofnun gerði ytra mat á skólastarfi í Borgarhólsskóla 2015. Skýrsluna má sjá hér. 

Í kjölfar ytra mats úttektar Menntamálastofnunnar varð til umbótaáætlun sem starfsfólk Borgarhólsskóla vann eftir til vorsins 2019. Í júní 2019 skilaði skólastjóri mat á umbótaáætlun til Menntamálastofnunnar.