- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Í dag er alþjóða baráttudagur gegn einelti. Einelti, nei, takk! Á þessum degi unnu nemendur margvísleg verkefni í tengslum við baráttuna gegn þessu samfélagsmeini. Með verkfærum Jákvæðs aga er unnið að því að gera nemendur að betri manneskjum á hverjum degi.
Nemendur í fyrsta bekk unnu með hugtökin bros og hrós og áhrif þeirra á daglegt líf. Þeir bjuggu til gleði- og hróskort. Þeim var boðið á dansiball í Salnum hjá nemendum sjötta og sjöunda bekkjar þar sem allir hrisstu sig og dilluðu sér. Eftir hádegisverð fóru nemendur fyrsta bekkjar í göngutúr um bæinn og dreifðu gleði- og hróskortum meðal bæjarbúa á Húsavík og sungu fyrir þá.
Nemendur í öðrum og þriðja bekk föndruðu hendur og bjuggu til vináttuhring. Þeir skrifuðu vináttuorð inn í hringinn.
Nemendur í fjórða og fimmta bekk bjuggu til vináttutré og veltu fyrir sér hvaða eiginleikum góður vinur þarf að búa yfir. Þeir skrifuðu sínar hugmyndir á laufblöð sem myndaði svo tré sem allir eiga sinn þátt í að reisa. Þeir hlustuðu á tónlist um vináttuna og horfðu á fræðslumyndband um einelti. Jafnframt fengu þeir heimaverkefni sem felst í að taka viðtal við fjölskyldumeðlim um vináttuna.
Nemendur sjötta og sjöunda bekkjar héldu kynjaskipta bekkjarfundi upp á morguninn þar sem eineltishringurinn var til umræðu. Þeir færðu nemendum fyrsta til þriðja bekkjar hjartalaga hálsmen með jákvæðum yrðingum og hvatningu. Sömuleiðis fóru þeir í heimsókn á Hvamm, heimili aldraðra og færðu íbúum þar slíkt hið sama. Farið var í hvers konar hópeflisleiki, hannaður bekkjarsáttmáli og skreyttu skólaumhverfið með jákvæðum orðum og hvatningu fyrir sig sjálf.
Nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk var skipt í hópa og fengu hóparnir mismunandi sögur um einelti til að vinna með. Hóparnir veltu fyrir sér líðan og tilfinningum sem komu fram í sögunum og hugmyndir að lausnum við hvers konar vandamálum. Hóparnir sameinuðust og ræddu niðurstöðuna. Sömuleiðis fór hver árgangur á bekkjarfund þar sem eineltishringurinn var til umræðu. Þar fengu nemendur að tjá sig um sýna upplifun af einelti og staðsetja sjálfan sig í hringnum sem var svo rætt af virðingu og hreinskiptni. Nemendum var skipt í vinahópa sem vænst er að hittist í nokkur skipti fram að áramótum og fengu nemendur hugmyndalista um hvað er hægt að gera.
Dagurinn var ákaflega vel heppnaður og til að gera daginn enn betri þá komu nemendur á Grænuvöllum í heimsókn og færðu bæði nemendum og starfsfólki hjartalaga kærleikskveðju sem gladdi marga. Hafi þeir bestu þakkir fyrir.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |