Árshátíð Borgarhólsskóla - þríþætt frásögn

Undirbúningurinn...
Undirbúningurinn:
Undirbúningur fyrir árshátíðina hefur staðið síðan í byrjun september. Þá var skipuð nefnd sex nemenda sem síðan sáu um undirbúning hátíðarinnar. Strax var farið í að ráða til starfa plötusnúða og fundust þeir strax hér á heimaslóðum. Mesti og stærsti höfuðverkurinn við að halda árshátíð hér í skólanum eru tækni og skreytingamálin. Því miður þá hefur enn ekkert verið gert til að gera salinn okkar brúklega til þess að hægt sé að setja upp almennilegar sýningar/hátíðir án þess að til þurfi mikið af utanaðkomandi búnaði, en vonandi rætist einhvern tímann úr þeim draumum okkar? Erling ljósameistari var fenginn til að stjórna uppsetningu á ljósabúnaði svo árshátíðin og diskóið yrði sem flottast. Það tókst með eindæmum vel og er óhætt að segja að salurinn hafi sjaldan eða aldrei verið glæsilegri. Krakkarnir í nefndinni unnu síðan mikla og góðu vinnu við skipulagningu og utanumhald allt fram til loka árshátíðarinnar og er óhætt að segja að þau hafi getað starfað sjálfstætt og lítið þurft að ýta á eftir þeim. Til þess að allt þetta yrði mögulegt leituðum við til fyrirtækja í bænum og fengum góða styrki sem gerðu okkur kleift að stilla miðaverði í hóf miðað við allt sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag. Þessi fyrirtæki voru, Glitnir, Landsbankinn, Olís, Val, Heimabakarí og Viðbót og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir þeirra þátt í þessu.  
Unnar Þór Garðarsson
Frásögn nemanda:
Þann 14. nóvember síðast liðinn dressuðu nemendur á unglingastigi sig upp til að mæta á árshátíð. Planið var að éta á sig gat, fylgjast með skemmtiatriðum, hlæja dálítið á kostnað annarra í stjörnumessunni, sem (fyrir þá sem ekki vita) er athöfn þar sem fólki af hinum ýmsu gerðum eru veitt verðlaun fyrir stórkostlegan persónuleika þeirra og síðast en alls ekki síst, dansa af sér afturendann á diskói sem var þar á eftir.
Nemendur röðuðu í sig hinum ýmsu kræsingum sem Salka matreiddi svona líka snilldarlega. Svo var röðin komin að skemmtiatriðunum sem voru sum alveg afburða góð. Þar ber helst að nefna kennaraatriðið sem stóð upp úr. Þá tóku kennarar nokkra vel valda nemendur og „stældu“ þá við mikinn fögnuð viðstaddra.
Já, svo má nú ekki gleyma því að Halldór tók nokkrum sinnum fram nikkuna þetta kvöld og spilaði nokkra slagara. Þetta vakti náttúrulega mikla kátínu nemanda sem tóku vel undir.
Í stjörnumessunni voru veitt nokkur alveg dásamleg verðlaun eins og; rauðhærður ársins, krútt ársins, bros ársins og skalli ársins.
Að lokum þeyttu DJ Jakob og Unnur skífum eins og þeim einum er lagið. Þrátt fyrir tæknileg vandamál gátum við dansað eins og enginn væri morgundagurinn.
 
Takk fyrir :)
Sigrún Lilja 10.9
 
 
Frásögn starfsmanns skólans:

Unglingar Borgarhólsskóla mættu prúðbúnir í sal skólans sl. föstudag, á árshátíðina. Salurinn tók stakkaskiptum þennan dag og varð hinn glæsilegasti, nemendur höfðu notað daginn til að skreyta og gera salinn hátíðlegan. Hátíðin hófst með því að nemendur og kennarar tóku vel til matar síns, veitingahúsið Salka reiddi fram miklar kræsingar. Hver bekkur hafði undirbúið skemmtiatriði og voru þau mjög fjölbreytt. Þrjár hljómsveitir skemmtu gestum og við Húsvíkingar þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíð tónlistariðnaðarins. Þetta voru frábær bönd og einstaklega góðir tónlistarmenn. Við fengum einnig að hlýða á auglýsingar og Singing Bee. Einn hópur kynnti sig á reglulega frumlegan hátt við góðan orðstír veislugesta. Síðasta atriði hátíðarinnar var svo stjörnumessan, sem er árlegur viðburður á árshátíðum skólans og sennilega það atriði sem flestir bíða spenntastir eftir. Þar fengu nemendur hinar ýmsu viðurkenningar, eins og stundvís ársins og egó ársins svo eitthvað sé nefnt. Inn á milli atriða tók Halldór skólastjóri fram nikkuna og stjórnaði fjöldasöng af miklum móð og nemendur tóku hraustlega undir. Eftir borðhaldið var svo diskó þar sem nemendur dönsuðu fram eftir kvöldi. Þessi árshátíð tókst einstaklega vel og gaman hve nemendur höguðu sér vel og að allir voru mættir til að skemmta sér og öðrum. Takk fyrir mig. Halla Rún Tryggvadóttir

Myndir frá árshátíðinni.