- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Skólastarf var með óhefðbundnu sniði í vikunni, námið brotið upp og leitast við að nálgast viðfangsefnin á fjölbreyttari hátt. Þemað var rithöfundurinn Astrid Lindgren sem við þekkjum flest. Vinabekkir unnu saman að nokkrum sögum Astrid; Bróðir minn ljónshjarta, Ronja ræningjadóttir, Börnin í Ólátagarði, Lína Langsokkur og Lotta.
Höfuðmarkmið þemadaganna var að blanda öllum nemendum saman með samvinnu og sköpun að leiðarljósi. Eldri nemendur aðstoðuðu þá yngri og öfugt. Þetta markmið náðist enda gaman að fylgjast með samskiptum nemenda þvert á aldur. Hver hópur fór saman í mat og voru að mestu leyti saman alla þemadagana.
Fyrsti og sjötti bekkur unnu með sögurnar um Lottu. Nemendur fengu kynningu á Astrid Lindgren, hvað bækur og sögur hún hefur skrifað og sögu hennar sjálfrar. Nemendur horfðu á myndina um Lottu í Skarkalagötu og útbjuggu veifur með sænska fánanum enda sögusviðið sænskt sem og Astrid sjálf. Nemendur teiknuðu myndir úr sögunni bæði smáar og í raunstærð. Sömuleiðis tuskudýr með vísan í söguna.
Annar og sjöundi bekkur völdu að vinna með Línu Langsokk. Nemendur horfðu á myndina um Línu á sjóræningjaslóð og gerðu söguvegg þar sem unnið var með hugtökin upphaf, miðju og endi. Nemendur föndruðu persónur og umhverfi úr myndinni. Farið var í vettvangsferð á Bókasafnið á Húsavík þar sem nemendur fengu fræðslu um Astrid Lindgren og sögu hennar. Þau sáu myndir af fyrstu söguna hennar Astrid sem eru tæplega áttatíu ára og fjölluðu um Lóu Langsokk áður en persónan fékk nafnið Lína.
Þriðji og áttundi fóru í hlutverk barnanna í Ólátagarði. Hópnum var skipt í þrjá hópa sögunnar; Miðbæ, Norðurbæ og Suðurbæ. Börnin horfðu á kvikmyndina og bjuggu til persónur og dýr í raunstærð. Eftir málun og listsköpun voru persónur og dýr látin standa upprétt. Nemendur bjuggu til lýsingu á hverri og einni fígúru, lásu inn í tölvu og spiluðu á opnu húsi. Gestir fengu þá kynningu á öllum persónum úr öllum bæjum.
Fjórði og níundi kynnt sér söguna um Ronju ræningjadóttur. Nemendur settu upp sögusvið bókarinnar með öllu tilheyrandi. Nemendur settu upp Helvítisgjá í skólanum milli Borkarvirkis og Matthíasarborgar og skreyttu með forvitnu rassálfunum og illkvittnu skógarnornunum. Nemendur hönnuðu og útbjuggu myndastand þar sem gestir og gangandi gátu tekið mynd af sér sem Birkir og Ronja. Sömuleiðis gerðu nemendur hreyfimynd eða stop-motion mynd með leirfígúrum úr sögunni.
Fimmtu og tíundi bekkur völdu að vinna með söguna um Bróðir minn ljónshjarta. Nemendur skiptu sögunni í nokkur svið, teiknuðu myndir og bjuggu til sögulínu. Nemendur hönnuðu og smíðuðu Kötluhelli og Koparhliðið úr endurnýjanlegu efni. Katla sjálf var smíðuð úr pappakössum sem nemendur gátu klætt sig upp í og leikið á opnu húsi. Þá hönnuðu og skáru nemendur út dreka, sverð og skildi til að skreyta.
Allir hópar fóru saman í íþróttatíma þar sem hreyfing og leikur byggðu á sögusviði Astrid.
Þemadagarnir fóru reglulega vel fram og virtust nemendur kunna að meta þessa vinnu og hafa gaman af. Í lok þemadaganna var skólinn opinn foreldrum og öðrum gestum og þökkum við kærlega þeim sem lögðu leið sína í skólann.
Smellið á myndbandið hér að neðan til að fá smá sýn af starfinu,
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |