- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Miðvikudaginn 19.ágúst 2015 birti Menntamálastofnun greiningu á árangri nemenda í skólum sem hafa tekið þátt í Byrjendalæsi. Við hörmum hvernig fréttaflutningi hefur verið háttað og umfjöllun oft verið byggð á, að manni virðist vanþekkingu.
Vegna þeirra frétta teljum við rétt að eftirfarandi komi fram: Haustið 2010 hófu allir kennarar á yngsta stigi nám í aðferðum Byrjendalæsis undir leiðsögn Háskólans á Akureyri. Síðan höfum við með góðum árangri í íslenskukennslu á yngsta stigi kennt eftir aðferðum Byrjendalæsis.
Í Byrjendalæsi er lögð áhersla á að nemendur lesi mikið, skrifi frá eigin brjósti og vinni með tungumálið á lifandi og skapandi hátt. Það hefur ekkert tapast úr lestrarkennslunni við að innleiða Byrjendalæsi heldur er skipulag kennslunnar nú markvissara, skipulagðara, samfelldara og skemmtilegra fyrir nemendur. Kennarar hafa öðlast verkfæri sem felst í markvissum, skipulögðum og faglegum vinnubrögðum þar sem þeir meta stöðu nemenda með ýmsu móti og undirbúa áframhaldandi nám út frá því. Einstaklingsþörfum nemenda er mætt með markvissum hætti og viðfangsefnin eru fjölbreytt og skapandi.
Að okkar mati styðja kennsluaðferðir Byrjendalæsis vel við grunnþætti aðalnámskrár 2011 og þeirri lykilhæfni sem ný aðalnámskrá leggur áherslu á í viðmiðum um námsmat í grunnskóla. Ef árangur þeirra árganga sem lært hafa eftir aðferðum Byrjendalæsis er borinn saman við árangur nemenda okkar áður en aðferðin var innleidd er ekki greinanlegur munur á árangri árganganna. Þess má geta að undanfarin ár hefur árangur nemenda okkar í íslensku í 4. bekk verið framúrskarandi.
Skólastjórnendur Borgarhólsskóla
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |