Síðustu skóladagana hefur 3...
Síðustu skóladagana hefur 3. bekkur verið í fjallaþema. Við höfum lesið um mismunandi fjöll,
merkt nokkur inn á kort, unnið með ljóðið Fjallganga og búið til fjallabók. Hápunkturinn var svo fimmtudaginn 29. maí þegar
hópurinn lagði af stað í fjallgöngu upp á Húsavíkurfjall.
Daginn áður höfðum við talað um að gaman gæti verið að fara upp
á topp. Fimmtudagurinn rann upp en eftir sólina undanfarna daga var niðdimm þoka á fjallinu. Þrátt fyrir það lögðum við í
hann kát og hress. Með í för var ein mamma og ein amma auk Eirinar sem tekur við Hönnu bekk næsta vetur. Gengið var sem leið lá upp með
skíðalyftunni og fyrsta pása var við efsta lyftustaur. Þar veltum við því fyrir okkur hvort vatn væri í Skálatjörn eða ekki.
Í ljós kom að meirihlutinn hafði rétt fyrir sér, það var vatn í tjörninni. Við skoðuðum gróðurinn í kring um
okkur og rifjuðum upp heiti helstu tegunda. Síðan var haldið áfram eftir slóða og nesti borðað á leiðinni upp á veg. Þar skildu
leiðir þar sem örfáir höfðu blotnað í fæturnar og sneru til baka með Hönnu en 29 börn gengu alla leið upp á topp og
fóru létt með. Við sáum að vísu ekki mikið fram fyrir fæturnar á okkur en ánægjan yfir að fara upp á fjallstoppinn var
öllu yfirsterkari. Uppi var dálítið svalt þannig að við fórum fljótlega niður aftur. Sumir höfðu fyrir því að taka
smá sýnishorn úr fjallinu með sér enda litríkir steinar það helsta sem fyrir augu bar! Það voru því stoltir og glaðir
krakkar sem komu í skólann rétt fyrir hádegi og eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu.
Kristjana Ríkey