Flateyjarferð 8. 9. og 10. bekkjar

Borgarhólsskóli efndi að venju til sjóferðar vestur í Flatey og var sú ferð farin miðvikudaginn í gær, 23...
Borgarhólsskóli efndi að venju til sjóferðar vestur í Flatey og var sú ferð farin miðvikudaginn í gær, 23. september, kl. 9:00  stundvíslega með skipum Norðursiglingar, Náttfara og Hauki.
 
Markmið ferðarinnar er að unglingahópurinn og starfsmenn skólans gleðjist saman, fræðist,  fái að upplifa ævintýri. Nemendur fræðast m.a. um lífríki flóans, skipin, Náttfaravíkur, Víknafjöllin, Flatey o.fl..
Veður var með eindæmum gott og Kinnafjöllin með fegursta móti með nýföllnum snjó og við nutum þess öll að vera saman þó sumir hafi verið smá sjóveikir. Við tókum land í Flatey og skoðuðum þar kirkjuna, vitann og samkomuhúsið, litum einnig á gamla skólann og önnur hús sem eyjamenn hafa auðsjáanlega mikinn metnað fyrir að gera falleg. Þetta er í þriðja sinn sem farið er í Flatey og það er mjög gaman að sjá uppbygginguna og breytinguna sem hefur orðið á þessum árum. Á heimleiðinni sáum við hrefnur og var það mikil upplifun fyrir marga, einnig drógu tíundu bekkingar upp segl á Hauknum en því miður var enginn byr svo við máttum fella þau aftur og kveikja á vélunum.
  
Norðursigling niðurgreiða  stóran hluta ferðakostnaðar og þökkum við þeim þann stuðning.
 
Ekki komust þó allir nemendur með í ferðina og fengu þeir að vinna verkefni  í skólanum undir stjórn kennara.
Myndir úr ferðinn má sjá hér.