Forvarnardagur 2008 var haldinn í grunnskólum landsins fimmtudaginn 6...
Forvarnardagur 2008 var haldinn í grunnskólum landsins fimmtudaginn 6.
nóvember. Dagurinn var helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar
fjölskyldur í landinu. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga,
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla
Íslands og Háskólann í Reykjavík. Kjarninn í Forvarnardeginum felst í dagskrá og verkefnavinnu í öllum 9. bekkjum
grunnskólanna.
Í Borgarhólsskóla komu nemendur 9. bekkjar saman og horfðu á
kynningarmyndband sem sérstaklega var gert í tilefni dagsins. Jóhann R. Pálsson æskulýðsfulltrúi Norðurþings og Sveinn Aðalsteinsson
framkvæmdarstjóri Völsungs og HSÞ ræddu við nemendurna um tómstundir og æskulýðsstarf sem er í boði í
Norðurþingi og á félagssvæði HSÞ.
Að lokum mynduðu nemendur umræðuhópa og veltu fyrir
sér spurningum er varða samverustundir fjölskyldna, þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi,
auk spurninga er tengjast áfengis- og fíkniefnaneyslu þessa aldurshóps. Tilgangurinn er að fá fram sjónarmið unglinganna sjálfra og hlusta
á skoðanir þeirra og reynslu. Niðurstöðurnar verða teknar saman og þeim komið á framfæri.
Nemendur í 9. bekk Borgarhólsskóla er mjög virkir
þátttakendur í íþróttum og öðru hollu félagsstarfi. Rannsóknir hafa líka sýnt að samvera fjölskyldna og
þátttaka í íþróttum, listum og öðru heilbrigðu félagsstarfi er góð forvörn.
Nemendur munu áfram vinna að ýmsum verkefnum tengdum forvarnardeginum og
lífsleikni.
KAG, HV