Fréttapistill frá stjórn Foreldrafélags Borgarhólsskóla

Mynd frá foreldrafundi
Mynd frá foreldrafundi
Foreldrafélagið stóð fyrir fræðslufundi 1...
Foreldrafélagið stóð fyrir fræðslufundi 1. mars í Sal Borgarhólsskóla. Aðalsteinn Júlíusson lögreglumaður á Húsavík og Þorsteinn Pétursson lögreglumaður á Akureyri komu og héldu fyrirlestur um ýmiss gagnleg mál fyrir foreldra, er varða reglur um aldursmörk ýmissa áfanga á unglingsárunum, lögfræðileg orð og hugtök, einkenni einstaklinga í neyslu, áfengis – og fíkniefnanotkun og stöðuna í dag.
Þorsteinn hefur sinnt forvörnum í skólum á Akureyri um langt skeið og hefur mikla þekkingu á þessum hlutum. Hann fór góðum orðum um unglingana og vill hvetja okkur foreldrana til þess að vera í góðu sambandi við unglingana okkar og vera ákveðin í því að fylgja settum reglum eins og reglum um útivistartímann og koma í veg fyrir eftirlitslaus unglingapartý. Mikilvægt er að hjálpa unglingunum að taka ákvörðun þannig að þeir séu búnir að því er þeir síðan lenda í þeim aðstæðum að velja. Lögreglan vill hvetja okkur foreldrana til þess að hjálpast öll að. Fíkniefnavandinn er ekki einkamál lögreglunnar. Það næst enginn árangur í þessum málum nema allir taki höndum saman og sameinist í baráttunni gegn þessu stóra þjóðfélagsvandamáli. Fíkniefni koma öllum við og ef við höfum upplýsingar sem þarf að koma til lögreglunnar er sjálfvirkur símsvari vegna upplýsinga um fíkniefni 800 5005. Fólk getur hringt á öllum tímum sólarhringsins og komið upplýsingum á framfæri. Og nafnleyndar er heitið í öllum tilvikum.
Stjórn Foreldrafélagsins hefur borist til eyrna kvartanir frá foreldrum þess efnis að erfiðlega gangi að halda reglur um tölvunotkun á heimilum, og tryggja nægan svefntíma. Mikilvægt er að ræða þessa hluti við börnin. Og þá þegar þau eru ekki límd við tölvuna heldur leita leiða til þess að skapa umræðu við þau um ákveðnar notkunarreglur, þannig að tryggt sé að börnin fái næga hvíld og svefn svo þau geti vaknað nægilega snemma á morgnana til þess að fá sér góðan morgunmat áður en haldið er í skólann. Góð næring og nægur svefn er nauðsynlegt að fá svo skóladagurinn gangi vel.

Athugasemdir