Gestir sem gleðja þegar þeir fara

Höfuðlúsin er lítið skorkvikindi sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í mannshári á höfði og nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Hún er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus hýslinum. Foreldrar eru beðnir um að tilkynna um lúsasmit í skólann.

Allir geta smitast en staðfest smit er algengast hjá 3-12 ára börnum. Höfuðlúsasmit er ekki talið bera vitni um sóðaskap. Höfuðlúsin er 2-3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), grá eða ljósbrún á lit.

 

Það er komin upp lús í skólanum og foreldrar beðnir um að kemba börn sín og fylgjast með þessum leiðinda gesti. Það getur verið hentugt að ganga með húfu eða buff til að draga úr líkum á smiti. Sömuleiðis barst skólanum tilkynning um njálg fyrir skemmstu. Eins og skipstjórinn sagði; nú verða allir að standa sína plikt og koma í veg fyrir útbreiðslu þessara leiðindagesta.

 

Hvað á að gera ef lús finnst?

  • Hægt er að fá án lyfseðils í lyfjaverslunum efni til að bera í hárið sem drepur lúsina og eggin. Mjög mikilvægt er að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum sem fylgja. Einnig þarf að:
  • Skoða aðra heimilismenn og nána vini og athuga hvort þeir séu líka með höfuðlús (kemba þeim með lúsakambi).
  • Meðhöndla aðeins þá sem eru með lús (alla heimilismenn samtímis).
  • Kemba með lúsakambi daginn eftir að lúsameðalið var sett í, til að athuga hvort meðferðin hafi heppnast – lifandi lýs eiga þá ekki að vera til staðar. Kemba síðan annan hvern dag í tvær vikur.
  • Æskilegt er að kemba jafnframt öðrum heimilismönnum samhliða
  • Endurtaka lúsameðalsmeðferðina þegar 7 dagar eru liðnir frá upphaflegu meðferðinni – til að drepa þá lús sem hugsanlega hefur klakist út úr nit (eggjum lúsarinnar) og ekki drepist í fyrstu meðferðinni.
  • Ekki er talin þörf á að þvo föt, rúmfatnað og tuskudýr o.fl. þess háttar til að hindra höfuðlúsasmit því lýsnar eru taldar deyja fljótt eftir að þær fara úr hlýjum, rökum og blóðríkum hársverðinum.

 

Sjá vef Landlæknisembættisins með því að smella HÉR.