Góð heilsa, gulli betri

Borgarhólsskóli varð formlega þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóla í fyrra en í ár var hafin formleg innleiðing og heilsuteymi komið á laggirnar.

Heilsueflandi skóli er skóli sem leggur áherslu á heilbrigða
lífshætti. Verkefnið er á vegum Landlæknisembættisins og miðar að því að
skólinn stuðli að heilbrigðum lífsháttum hjá nemendum og starfsfólki. Lögð er
áhersla á átta þætti í Heilsueflandi grunnskóla. Þeir eru: Mataræði/tannheilsa,
hreyfing/öryggi, geðrækt, heimili, lífsleikni (tóbaksvarnir og áfengis og
vímuvarnir), nemendur, nærsamfélag og starfsfólk.

Við í Borgarhólsskóla urðum þátttakendur í verkefninu í
fyrra en í ár fórum við í markvissa vinnu við að innleiða heilbrigða lífshætti
í skólanum. Við skólann starfar heilsuteymi sem í eru kennarar,
skólahjúkrunarfræðingur, skólaliði og skólastjóri. Hlutverk teymisins er að stýra
innleiðingunni. Í ár tókum við þá ákvörðun að leggja áherslu á mataræðis- og
tannheilsuþáttinn þar sem mötuneyti skólans verður opnað á þessu skólaári. Við
höfum fundað með matráðum skólans og höfum í hyggju að starfa með þeim að því
markmiði að allir fái hollan og næringarríkan mat í skólanum. Tannheilsuþættinum
er sinnt af skólahjúkrunarfræðingi sem kemur reglulega „á stofugang“ og gefur
nemendum flúor við mikinn fögnuð. Auk þess ræðir skólahjúkrunarfræðingurinn við
nemendur um mikilvægi góðrar tannhirðu. Heilsueflandi skóli er einungis leiðbeinandi varðandi
heilbrigða lífshætti. Ekki er þar með sagt að skólar sem taka þátt í þessu
verkefni og vilja gerast heilsueflandi sleppi öllu því sem kallast sætindi og
krakkar kalla oft „eitthvað gott“. T.d. selur 10. bekkur enn skúffuköku á
föstudögum í sinni fjáröflun eins og venja hefur verið hér við skólann í mörg
herrans ár. Við reynum hins vegar að hvetja alla til að stilla sætindum og
óhollustu í hóf. Heilsueflandi skóli snýst heldur ekki einungis um mataræði,
það er að mörgu að hyggja hvað varðar heilbrigði þó að mataræðið skipti að
sjálfsögðu miklu máli. Því má heldur ekki gleyma að máltíðin sem nemendur fá í
skólanum er aðeins lítill hluti þeirra máltíða sem þeir borða á einni viku.

Mötuneytið fer mjög vel af stað í skólanum, þar skín gleðin
úr hverju andliti. Allir, nemendur sem starfsfólk, virðast himinsælir með það
sem boðið er upp á þar.

F.h. heilsuteymis Borgarhólsskóla

Halla Rún Tryggvadóttir


Athugasemdir