- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Leikhópurinn Stertabenda, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, sýndi leikritið "Góðan daginn, faggi" í Gamla Samkomuhúsinu. Öllum nemendum í 9. og 10. bekk skólans og nærsveita Húsavíkur var boðið að sjá sýninguna án endurgjalds.
Um er að ræða sjálfsævisögulegan heimildasöngleik sem er unninn upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum og fjallar á gamansaman en einlægan hátt um aðkallandi málefni tengd hinseginleika; skömm, öráreiti og drauminn um að tilheyra. Verkið hefur ríkt fræðslugildi og á brýnt erindi við íslenskt samfélag. Sýningin gekk fyrir fullu húsi allt síðasta leikár hjá Þjóðleikhúsinu og hefur fengið fádæma góðar viðtökur meðal gagnrýnenda og áhorfenda á öllum aldri.
Höfundar og aðstandendur sýningarinnar eru hinsegin sviðslistafólk sem ólst upp á landsbyggðinni. Bjarni Snæbjörnsson leikari er frá Tálknafirði, Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri er úr Hrísey og Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðasveit.
"Það hefur verið ásetningur okkar frá upphafi ferilsins að ferðast um landið með sýninguna, eiga opið samtal við ungmenni og vera fyrirmyndirnar sem við sjálf hefðum þurft á að halda á yngri árum. Það er einlæg von okkar að með sýningunni í efstu bekkjum grunnskóla og umræðu sem sýningin skapar verði hægt að vinna gegn einangrun hinsegin unglinga, ofbeldi, fordómum og hatursorðræðu sem hefur sýnt sig að undanförnu að færist í aukana," segir í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar.
Góður rómur var gerður að sýningunni og við hvetjum foreldra til að eiga samtal við eldhúsborðið um sýninguna. Við þökkum aðstandendum sýningarinnar og styrktaraðilum kærlega fyrir komuna til Húsavíkur.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |