Magnús Stefánsson
Í dag þriðjudaginn 13...
Í dag þriðjudaginn 13. apríl fengu nemendur unglingadeilda
fræðslu um skaðsemi fíkniefna þar sem Magnús Stefánsson sýndi þeim nýtt myndband og ræddi við þá um skaðsemi
fíkniefna.
Í myndbandinu eru viðtöl við nokkra einstaklinga sem hafa orðið
fíkniefnum að bráð og er átakanlegt að sjá hvernig fíknin tekur völdin og hefur varanleg áhrif á einstaklinginn, hvernig hún
hefur skemmt þá.
Magnús er óvirkur alki og fíkill og ræddi við nemendur um
fíknina og afleiðingar hennar, bæði út frá sínu eigin lífi og myndbandinu. Ekki var hér um neinn hræðsluáróður
að ræða, heldur virtist markmiðið vera að skýra út með faglegum hætti lífið, hætturnar og afleiðingarnar eins og
þær líta út fyrir þá sem hafa upplifað slíkt og eins og málið lítur út í raun og veru.
Í lokin varpaði Magnús boltanum yfir til unglinganna, að það
væri þeirra að taka afstöðu og að gera það strax; hættu áður en þú byrjar; taktu
ákvörðun í dag um að ætla aldrei að byrja.
Þessi fræðsla er kostuð af forvarnarsjóði sveitarfélagsins
í samstarfi við Borgarhólsskóla og Framhaldsskóla Húsavíkur og er liður í vímuvarnaráætlun
skólans.
Viljum við þakka Magnúsi kærlega fyrir frábæran fyrirlestur og hvetja foreldra til að mæta í dag en
Magnús verður með fund með aðstandendum og öðrum sem áhuga hafa kl. 16:30 í dag í sal Borgarhólsskóla.
SÞ