Í Flatey
Nú má segja að það sé orðin hefð við Borgarhólsskóla að sigla með unglingadeildir að hausti á bátum Norðursiglingar um Skjálfandaflóa...Nú má segja að það sé orðin hefð við Borgarhólsskóla að sigla með unglingadeildir að hausti á bátum
Norðursiglingar um Skjálfandaflóa. Í haust var siglt þriðjudaginn 3. október.
Fyrst var siglt haustið 2003 og þá út í Flatey. 2004 var farið í Naustavík og 2005 var siglt út með Tjörnesi. Núna var
aftur siglt út í Flatey. Ætlunin er að halda þessu ferðaplani þannig að þeir sem brautskrást frá Borgarhólsskóla
séu a.m.k. þrísigldir á Skjálfanda.
Mánudaginn 2. október 2006 var spáin góð, þannig að ákveðið var að sigla að morgni. Spáin gekk eftir og var lagt úr
höfn á Náttfara og skonnortunni Hauki um níuleytið í blíðskaparveðri. Með Hauknum sigldu tíundubekkingar ásamt
umsjónarkennurum og skólastjóra en aðrir með Náttfara. Skipstjóri á Hauknum var Einar Magnússon og Heimir Harðarson
leiðsögumaður. Á Náttfara var Hreiðar Olgeirsson skipstjóri og Þórunn Harðardóttir leiðsögumaður.
Stefnan var sett á Vargsnes. Á leiðinni yfir flóann fræddu leiðsögumenn ferðalanga um lífríki flóans, bátana og
hvalaskoðun. Haukur er t.d. eina skonnortan á Íslandi. Þegar komið var að Fiskiskeri sáust a.m.k. tvær hrefnur blása og var þeim veitt
athygli um stund. Þá var stefnan tekin út með Víknafjöllum sem skörtuðu sínu fegursta. Vel sást upp í Hvanndalina og
Hágöng gnæfðu yfir.
Það var komið undir hádegi þegar lagst var að bryggju í Flatey. Þegar í land var komið tóku menn upp nestið og neyttu þess
undir vegg húss sem verið er að gera upp og á rústum annars. Þegar allir voru mettir var stefnan sett á kirkjuna og vitann. Flestir fóru upp í
vitann og inn í kirkjuna en önnur hús skoðuð að utan nema hvað farið var inn í samkomuhúsið og Garðshorn því þeir
feðgar Jóhann og Gunnar voru með í för.
Klukkan var farin að ganga tvö þegar lagt var frá bryggju. Siglt var um stund inn með fjöllunum en stefnan fljótlega sett á Húsavík.
Á heimleiðinni var boðið upp á heitt kakó og snúða að hætti Norðursiglingar. Þá sáust bæði höfrungar og
hnísur. Ætlunin var að vinda upp segl á Hauknum og sigla, en þar sem enginn byr var létu menn nægja að heisa eitt segl, skonnortuseglið sem er
á fremri siglunni. Um stund sigldu bátarnir samsíða og sungu farþegar þá af lífs- og sálarkröftum.
Komið var til hafnar á Húsavík um hálf fjögur.
Það var mál manna að þetta hafi verið mjög góð ferð enda veðrið frábært og enginn sjóveikur.