Nú má segja að það sé orðin föst siðvenja í Borgarhólsskóla að unglingadeildir sigli á Skjálfanda að hausti með bátum Norðursiglingar...
Nú má segja að það sé orðin föst siðvenja í Borgarhólsskóla að unglingadeildir sigli
á Skjálfanda að hausti með bátum Norðursiglingar.
Um þrjá siglingaleggi er að ræða:
Flatey –- Náttfaravíkur -- Tjörnes.
Þetta árið var siglt í Náttfaravíkur og land tekið í Naustavík.
Svo kynlegt sem það er þá ku engin víkin þarna heita Náttfaravík, heldur er Náttfaravíkur heiti á
mörgum víkum út eða norður frá Kotafjöru, sem er við Purkárós. Myndir úr ferðinni má skoða hér.
Miðvikudaginn 26. september lét skólastjóri þau boð út ganga að sigla ætti næsta dag ef veður
leyfði. Bað hann nemendur að mæta bæði með skólatöskuna og nesti næsta morgun. Er fimmtudagurinn rann upp var strax ljóst að ekki yrði
siglt þann daginn. Hófst því kennsla samkvæmt stundaskrá klukkan 8:15. Bar þá nokkuð á því að nemendur væru
bókalausir. Sögðu þeir sem satt var að skólastjóri hefði sagt þeim að mæta með skólatöskuna en ekkert minnst á
bækur.
Föstudaginn 28. september var blíðskaparveður, sunnan andvari og nánast heiðskírt og því strax ljóst
að siglt yrði. Nemendur og nokkrir kennarar drifu sig því niður að höfn og var lagt á flóann um dagmál á tveimur bátum,
Náttfara og skonnortunni Hauki.
Sú hefð er að myndast að það séu skólastjóri og tíundubekkingar sem sigli með
skonnortunni.
Á Hauknum voru þeir frændur Árni og Heimir við stjórnvölinn ásamt Níls hinum þýska. Þar
voru og Halldór skólastjóri og Gummi stæ.
Er út úr höfninni kom fræddi Árni ferðalanga á Hauknum um sögu skipsins, siglingar og seglabúnað.
Þá voru seglin heist. Klíver, fokka, framsegl, stórsegl og meira að segja toppseglin bæði. Þá drápu skipstjórnendur á
vélinni og var í dágóða stund siglt á allt að fjögurra sjómílna ferð. Þá fannst að það er
sérstök tilfinning að vera um borð í báti undir seglum.
Við stjórnvölinn á Náttfara var Hrólfur Þórhallson með sínum mönnum. Þar voru líka
kennararnir Halla Rún, Halla Lofts, Sigrún, Ada, Ingólfur, Karin og Harpa.
Tvær víkur komu til greina til landtöku þ.e.a.s. Naustavík og Rauðavík. Ákveðið var að fara í
Naustavík. Þar stendur ennþá íbúðarhús í nokkuð góðu lagi sem ber gengnum kynslóðum gott vitni um stórhug og
smekkvísi.
Það var logn og ládauður sjór, eins
og segir í kvæði, þegar lagt var að landi. Það gekk bæði fljótt og vel að ferja mannskapinn í land.
Þegar komið var upp að bænum fór að færast fjör í leikinn, því þar voru fyrir
kóngulær margar sem vörnuðu unga fólkinu sætis. Þrátt fyrir allt náðu flestir að nærast, annað hvort úr mal
sínum eða pappakassanum góða frá hótelinu með öllum samlokunum.
Flestir skrifuðu í gestabókina eftir að hafa skoðað húsið.
Heimferðin gekk vel.
Um miðjan flóa efndi Halldór skólastjóri til spurningakeppni og hét góðum verðlaunum.
Frómt frá sagt voru svörin rýr.
Fjallið með nöfnin þrjú (Bakrangi, Galti og Ógöngufjall)
Kinnarfjöll og eða Víknafjöll.
Garðar og Náttfari – þrællinn og ambáttin.
Hnjúkaþeyr (hann var vel merkjanlegur þennan dag)
Er stutt var til hafnar sigldu bátarnir samsíða um stund og sungust þá áhafnirnar á að frumkvæði
skólastjóra. Þetta voru mest sjómannalög í ýmsum tóntegundum.
Mitt á milli hádegis og nóns var komið til hafnar á Húsavík. Það var mál manna að þetta
hefði verið góð ferð og fóru allir glaðir og ánægðir frá borði.
G Fr.