Heimsókn á heilsugæslustöðina

Þriðjudaginn 5...
Þriðjudaginn 5. maí komu 10.bekkingar úr Borgarhólsskóla með kennurum sínum þeim Brynhildi Þráinsdóttur og Höllu Rún Tryggvadóttur í heimsókn hingað á heilsugæsluna. Markmiðið með heimsókninni var að kynna fyrir þeim heilsugæsluna og starfsemina hér. Þessir nemendur eru að hefja nám á framhaldsskólastigi og þar sem framhaldsskólinn hér hefur ekki getað boðið nemendum upp á skólaheilsugæslu verður heilsugæslustöðin þeirra skólaheilsugæsla á næstu árum.
Við byrjuðum á því að hitta krakkana niðri í kaffistofu heilsugæslunnar, þar bauð undirrituð þau velkomin og sagði nokkur orð við þau, svo tók Sigríður Jónsdóttir til máls og kynnti fyrir þeim starfsemina og sagði þeim frá þeim vandamálum sem fólk getur leitað til okkar með. Unnsteinn læknir sagði svo frá aðkomu lækna hér á heilsugæslunni og hvernig þau gætu pantað sér tíma eða komið á vaktina með sín málefni. Hópnum var svo skipt í tvo hópa og gengið um stofnunina. Þeir byrjuðu gönguna í móttökunni og fengu svo að kikja á t.d. speglunarherbergið, inn til þeirra á rannsókn, sagt frá skipulaginu á skurðstofu, skoðuðu röntgen og aðstöðuna sem kvensjúkdómalæknir hefur, hittu svo ljósmóður sem var með smá kynningu á sínu starfi og svo fengu þau kynningu á starfi hjúkrunarfræðings á heilsugæslu.
Í lokin enduðu þau svo niðri í kaffistofu aftur þar sem blóðþrýstingur var mældur og þau fengu sér ávexti og safa úr eldhúsinu.
Ég vil þakka starfsfólki stofnunarinnar fyrir góðar móttökur en bæði kennarar og nemendur voru mjög ánægð með þessa heimsókn.
 
Brynhildur Gísladóttir skólahjúkrunrfræðingur Borgarhólsskóla