Siðastliðinn mánudag og þriðjudag þann 22 og 23 september sl...
Siðastliðinn mánudag og þriðjudag þann 22 og 23 september sl. heimsótti Addi
lögga, Borgarhólsskóla og ræddi við börn frá 1.bekk til 9.bekkjar. 10. bekkur fékk síðan umferðarfræðslu frá
Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu á miðvikudaginn.
Kynningarefni það sem lögreglan notar er samræmt á landsvísu og hefur
tilvísun og styðst við Aðalnámskrá grunnskóla og námsefni í Lífsleikni.
Þema heimsóknarinnar er eins og áður sagði mjög tengt lífsleikni með
sérstökum áherslum á mikilvægi þess að greina rétt frá röngu og orð eins og „
hugrekki; umburðarlyndi; þolinmæði; virðing og tillitssemi“.
Mikilvægt er að góð samvinna sé á milli skóla, uppalenda og
lögreglunnar og telur Addi að hann nái nokkuð vel til barnanna hér á Húsavík, enda þetta eitt af því skemmtilegra sem hann gerir
í vinnunni.
Addi leggur líka sérstaka áherslu í öllum bekkjardeildum á notkun
öryggisbúnaðar, hjálma, öryggisbelta, endurskinsmerkja og annarra persónuhlífa sem nota skal við hinar ýmsu aðstæður. Reynt er
að höfða til barnanna og miða umfjöllun við þroska þeirra. Þáttaka þeirra í umræðunni er einnig mjög
mikilvæg.
Í eldri deildum er lögð áhersla á við börnin að þau geri sér
grein fyrir að þau eigi val í lífinu, að þau geti stjórnað því sjálf að mestu leyti hvort þau kjósi að nota
öryggisbúnað sem í boði er, þó þrátt fyrir að þeim beri t.d. skylda til notkunar hjálma og öryggisbelta með
sérstaka áherslu á notkun reiðhjólahjálmanna. Skýrð eru út fyrir nemendum hugtök í eðlisfræði er
varða umferðina, t.d. „tregðulögmálið“ og afleiðingar þess að nota ekki bílbelti og hvað gerist ef slys verður og viðkomandi
er laus í bifreiðinni. Einnig er farið yfir öryggisbúnað reiðhjóla en þau þurfa að sjálfsögðu að vera í
fullkomnu lagi.
Lögreglan á Húsavík vill nota tækifærið og hvetja þá foreldra
hvers börn nota ekki reiðhjólahjálma, til að bæta um betur og beita sínum ráðum til að hvetja börn til notkunar
hjálma. Það hefur sýnt sig að notkun hjálma minnkar alvarleika slysa þar sem höfuðáverkar verða. Lögreglan mun fylgjast vel
með hjálmanotkun nú á haustdögum og óska úrbóta ef á brýtur.
Lögreglan vill þakka Borgarhólsskóla, kennurum, nemendum og foreldrum gott samstarf og
óskar öllum velfarnaðar í umferðinni.
Bent er á heimasíðu lögreglunnar; www.logreglan.is, sem og heimasíðu ríkislögreglustjóra, www.rls.is (forvarnir og viðbrögð),
um forvarnarstarf lögreglunnar og aðrar hagnýtar upplýsingar.
Adda löggu langar að vekja athygli á eftirfarandi myndbandi sem sýnir m.a. farþega
bifreiðar sem ekki notar öryggisbelti. Árekstur verður á 50 km hraða á klst og myndbandið segir sig sjálft. Kynning er
á ensku. Myndbandið er sviðsett.
Vakin er athygli á því að myndbandið ætti ekki að vekja óhug,
heldur vekja menn til umhugsunar.
Að lokum vill Addi benda á neyðarnúmerið 112. Í þessu
númeri er alltaf hægt að ná í lögregluna, gegn um Neyðarlínu. Ekki hika við að hringja ef eitthvað bjátar á.
Með kveðju, Aðalsteinn Júlíusson varðstjóri, lögreglunni á Húsavík.