Heimsókn frá Noregi

Starfsmenn frá Gardskole í Haugasundi koma í heimsókn í skólann á miðvikudaginn 6...Starfsmenn frá Gardskole í Haugasundi koma í heimsókn í skólann á miðvikudaginn 6. september. Fyrir hópnum fer Hólmfríður Garðarsdóttir, kennari í Gardskole og fyrrum kennari Borgarhólsskóla, sem ættuð er frá Húsavík. Hópur starfsfólks, foreldra og nemenda komu í heimsókn til okkar árið 2003 og  stór hópur frá okkur fór til Haugasunds árið 2004, þáverandi 7. bekkur, 15 foreldrar, skólastjóri Halldór Valdimarsson og kennararnir Jón Höskuldsson og Guðrún Kristinsdóttir. Okkar fólk sýndi m.a. leikritið Honk (ljóta andarungann) í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur sem var með í hópnum. Með okkur var líka Sigurður Illugason gestaleikari. Við dvöldum í 5 daga í Haugasundi og nutum mikillar gestrisni.
Tekist hafa góð kynni.milli þessara tveggja skóla. Gardskole er barnaskóli og eru um 50 manns í hópnum sem kemur hingað, kennarar, skólastjórnendur,  skólaliðar og foreldrar.
 
Hópurinn kemur til Íslands sunnudaginn 3. september og til Húsavíkur að kvöldi þriðjudagsins 5. september og dvelur á Fosshótel Húsavík fram á föstudag.  Norðmennirnir verða í Borgarhólsskóla allan miðvikudaginn 6. september með starfsmönnun skólans og verða þátttakendur í skólastarfinu. Að loknum skóladegi verður gagnkvæm kynning á skólunum og samvera starfsfólks um kvöldið.
Á fimmtudaginn 7. september verður svo farið til Akureyrar á fyrirlestur í háskólanum og komið við í Mývatnssveit á heimleiðinni. Gestirnir verða kvaddir í á Sölku á fimmtudagskvöldið og leggja af stað heim snemma á föstudagsmorgun.
H.V.