Hólmatungur – Vesturdalur í blíðskaparveðri

8. og 9. bekkur fóru úr Hólmatungum í Vesturdal miðvikudaginn 11. september. Veðrið var sérlega gott, hið fullkomna gönguveður, hvorki of kalt né of heitt. Nemendur mættu jákvæðir og vel útbúnir, allir voru tilbúnir í þessa göngu.

8. og 9. bekkur fóru úr Hólmatungum í Vesturdal miðvikudaginn 11. september. Veðrið var sérlega gott, hið fullkomna gönguveður, hvorki of kalt né of heitt. Nemendur mættu jákvæðir og vel útbúnir, allir voru tilbúnir í þessa göngu.

Eftir um klukkutíma akstur komum við í Hólmatungur, sem skörtuðu sínu fegursta, haustlitirnir að byrja. Fyrst var áð við Rauðkulæk, eftir um 5 mínútna göngu eða svo. Þar var fyrsta nestispásan áður en hin eiginlega ganga hófst. Mörgum nemendum þótti pásan heldur löng og voru margir farnir að bíða eftir að halda mætti áfram. Svo var stoppað við fossinn fagra, Lindárfoss minnir mig að hann heiti og þar voru teknar myndir, hópmyndir af bekkjunum. Því næst var gengið nokkuð greitt þangað til að því kom að vaða hina ísköldu Stallá. Þar myndaðist mikil og skemmtileg stemning, nemendur voru mis-hugrakkir að skella sér út í kalda ána. Á endanum fóru þó allir yfir, flestir óðu ána, einn nemandi fékk þó „far“ yfir ána! Á árbakkanum hinum megin var svo hádegisnesti, einhverjir höfðu það á orði að við værum „bara alltaf að borða“.

Þegar þeir fyrstu voru búnir að snæða nestið vildu þeir ólmir komast af stað. Þá var ákveðið að þeir sem vildu færu af stað og þeir sem vildu taka því rólega í hádegispásu gerðu það. Við kíktum svo við í Gloppu, hellinum sem er þarna á leiðinni. Þar fóru flestir niður til að skoða og taka myndir. Áfram var svo haldið og næsta stopp var við Karl og Kerlingu, hægt er að ganga alveg niður að þeim og voru einhverjir nemendur sem gerðu það, aðrir kíktu bara á þau „hjón“ og héldu svo áfram í rútuna.

Ferðin var tekin upp, þeir Ágúst Þór Brynjarsson, Sverrir Jóhannsson og Vignir Már Björnsson voru að taka upp fyrir þáttinn sinn "Gull Vignis og Gústa“. Þetta var mjög skemmtileg nýbreytni á göngudegi og setti öðruvísi blæ á gönguna. Myndin sem þeir klipptu svo saman úr þessari ferð er hér á síðunni, ég hvet alla sem ekki hafa séð hana til að gefa sér 38 mínútur og horfa á hana í gegn.

Það er gaman að segja frá því að nemendur voru sérlega vel út búnir, vel klæddir, vel skóaðir og með hollt og gott nesti. Þessi dagur var alveg sérlega skemmtilegur, nemendur voru svo jákvæðir og skemmtilegir. Allir  voru tilbúnir í þessa göngu og ef einhver hefur verið eitthvað fúll yfir þessu þá hefur sá hinn sami haft það  bara út af fyrir sig, sem er gott.

Við getum hlakkað til næstu ára og næstu gönguferða með þennan flotta unglingahóp sem við eigum hér í Borgarhólsskóla

Halla Rún

Myndir má sjá hér.


Athugasemdir