- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Einn af grunnþáttum menntunar er jafnrétti og er liður í kjarna menntastefnunnar á Íslandi. Starfshættir, inntak náms og umhverfi eiga að taka mið af grunnþáttunum og mynda mikilvæga samfellu í íslensku skólakerfi. Jafnrétti og mannréttindi eru samofin og snerta allt skólastarf. Það er mikilvægt að gera þessi hugtök hluta af skólabrag og menningu hvers skóla.
Síðastliðna þrjá daga hafa verið þemadagar í skólanum okkar um jafnrétti. Nemendur í fyrsta til þriðja bekk unnu saman, nemendur fjórða til sjöunda bekkjar sömuleiðis og unglingarnir okkar störfuðu saman þvert á árganga. Til að brjóta upp kennsludagana þá var hvers konar hreyfing, leikir og útivera.
Viðfangsefni daganna voru ansi mörg og ólík. Yngstu nemendurnir könnuðu aðgangi fólks að stofnunum og fyrirtækjum. Þeir fóru í vettvangsferð um Húsavík og skrifuðu minnisblöð vegna skerts aðgengis og hrósuðu hvar vel er gert. Sem dæmi er gott aðgengi fyrir alla í Framhaldsskólanum á meðan það reyndist erfitt að komast inn í stjórnsýsluhúsið í hjólastól. Víðast hvar eru merkt bílastæði fyrir fólk í hjólastól og aðra hreyfihamlaða.
Nemendur í fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda fóru í ýmsa samvinnuleiki þar sem reyndi á mismunandi styrkleika. Þeir rýndu í persónur í Disney ævintýrabókunum út frá kynjasjónarmiði; prinsessur, hetjurnar, hverjir voru veikburða, fallegar og fleira í þeim dúr. Niðurstöður voru ræddar og kynntar í hverjum hópi. Eitt verkefni var að kanna menningu þeirra nemenda sem eru nýjir í skólanum okkar og koma frá öðrum löndum.
Nemendur fóru í heimsókn í fyrirtæki og stofnanir og kynntust ólíkum störfum í bænum. Starfsfólkið sem nemendur heimsóttu áttu það sameiginlegt að vinna starf sem oftar en ekki er sinnt af gagnstæðu kyni eins og karlmaður sem hjúkrunarfræðingur og starfsmaður á leikskóla eða kona sem prestur, lögreglumaður og skipstjóri.
Á þemadögum varð til jafnréttisþorp Borgarhólsskóla. Nemendur á miðstigi bjuggu saman til þorp í Minecraft. Hver nemandi fékk 50 mínútur til að leggja sig fram um að byggja upp fyrir heildina. Allir hjálpuðust að og skildu jafnvel við hálfklárað verk sem næsti nemandi tók svo við til að ljúka. Þannig þurfti að treysta öðrum og vinna saman. Þorpið verður til sýnis á Verkstæðisdeginum.
Elstu nemendurnir voru í mikilli rannsóknarvinnu. Þeir unnu með jafnrétti kynjanna; karlmennsku og kvenleika, staðalímyndir, tungumál & menningu og ólík störf eftir kynjum. Þeir kynntu sér söguna og byltingar undangenginna ára líkt og #metoo. Samfélagsmiðlar, auglýsingar og tónlistarmyndbönd voru rannsökum m.t.t. staðalímynda. Nemendur kynntu sér menningu annarra landa með áherslu á þau lönd sem nýjir nemendur skólans koma frá. Nemendur fengu fyrirlestur frá Stefaníu Sigurdís Ingólfsdóttur, ungum femínista sem fjallaði um málið á áhrifaríkan hátt og frá sjónarhorni ungs fólks.
Reglulega ánægjulegum þemadögum lokið sem opna vonandi umræðuna enn frekar um jafnrétti. Myndir frá dögunum má sjá með þvi að smella HÉR.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |