Miðvikudaginn 30...
Miðvikudaginn 30. og fimmtudaginn 31. ágúst
stendur til að nemendur 6. bekkjar Borgarhólsskóla stundi nám í svokölluðum Laxárskóla. Í því felst að nemendur fara
að morgni að Hraunsrétt í Aðaldal og dvelja þar og við Laxá fram eftir degi (líklega til hálf fjögur, fjögur) við leik,
rannsóknir og önnur störf.
Forsaga Þann 26. ágúst árið 2004 kynnti Hermann Bárðarson hugmynd sína að rannsókna- og menntunarstofnun tengdri samnýtingu
náttúruauðlinda í Þingeyjarsýslu. Slík stofnun á að hafa það hlutverk að virkja náttúrurík svæði
í Þingeyjarsýslum sem þekkingaruppsprettu fyrir öll menntunarstig. Vorið 2006 var farið að vinna að þessari hugmynd innan Þekkingarseturs
Þingeyinga og Náttúrustofu norðausturlands í tengslum við Hermann. Var stefnan sett á að bjóða nemendum í Borgarhólsskóla
og Hafralækjarskóla í ferð að Laxá í Aðaldal til að kanna fiska og annað lífríki árinnar. Þetta verkefni fékk
heitið Laxárskóli og var haldinn fundur með forsvarsmönnum skólanna þann 12. júní 2006. Niðurstaða þess fundar var að stefnt
skyldi að því að nemendur í 6. bekk í Borgarhólsskóla og Hafralækjarskóla fengju að heimsækja ána í lok
ágúst. Var Aðalsteini Erni Snæþórssyni starfsmanni Náttúrustofunnar falið að sjá um undirbúning fyrir þessa
heimsókn.