Nemendur 7...
Nemendur 7. bekkjar skólans dvelja í skólabúðunum að Reykjum 19. – 23. maí við leik og störf. Starfið í
skólabúðunum beinist í öllum aðalatriðum að sömu markmiðum og hefðbundið starf í skólanum. Sérstök
áhersla er lögð á:
· félagsfærni
· sjálfstæði
· ný og áður óþekkt verkefni
· kynnast nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta
· rannsóknir
· tengja námsefnið við raunveruleikann
Svo fátt eitt sé nefnt.
Fararstjórar með 7. bekk Borgarhólsskóla eru: Sigríður Jónsdóttir, Solveig Jónsdóttir og Helga
Þórarinsdóttir.
Þess má geta að nemendur hafa unnið fyrir ferðinni með ágóða af skólasamkomu og alls konar annarri fjáröflun.
Sigga sendir fréttir hingað á síðuna af og til.
,,Þetta bréf er í anda : Engar fréttir eru góðar fréttir. Það hefur allt gengið mjög vel, flestir glaðir og
áhugasamir. Ekki skemmir að veðrið leikur við okkur.
Bestu kveðjur frá öllum
Sigga”
HV
Þriðjudagur 20. maí.
Dagurinn var bjartur, fagur og tiltölulega hlýr framan af en síðan læddist köld þokan inn fjörðinn. Dagskráin er með
hefðbundnum hætti að mestu. Krökkunum skipt í 3 hópa. Verkefnin eru t.d fjöruferð og lífið í fjörunni, leikfimi og
sund, undraheimur auranna ( fjármálakennsla ) og ferð á byggðasafnið. Í kvöld sáu krakkarnir sjálfir um
kvöldvökuna. Okkar fólk sýndi þar mikil tilþrif með frumsömdum atriðum bæði leik og söng. Við erum hér með
56 krökkum frá Vestmannaeyjum sem gaman er að kynnast.
Bestu kveðjur frá okkur öllum
Sigga
Það gleymdist alveg að segja frá því að við fengum heimsókn, Þorgrímur Þráinsson kom og hélt fyrirlestur
í boði kiwanis klúbbsins Skjálfanda. Hann spjallaði um lífið og hvernig maður ákveður sjálfur að lifa því.
Þorgrímur náði vel til krakkanna.
Núna er venjulegt Hrútafjarðarveður, frekar kalt en þurrt!!!
Sigga
Miðvikudagur 21. maí
Dagurinn var ljómandi fínn, okkar fólk stóð sig með prýði. Mikil spenna var fyrir kvöldinu, því á dagskrá
kvöldvöku voru kennaraatriði og diskó. Við kennararnir dönsuðum og sungum í óvenjulega glæsilegum búningum úr
búningageymslunni hér á Reykjum. Síðan brugðum við á leik með appelsínuboðhlaupi og dýraleik. Því
næst var frábært diskó með fjölbreyttri tónlist og diskóljósum.
Fimmtudagur 22. maí
Í dag er hefðbundin dagskrá fram að mat, síðan hópmyndataka og skemmtiatriði frá krökkunum. Því næst er
hárgreiðslukeppni þar sem allt er leyfilegt nema að klippa strákana. Strax eftir kvöldmat er svo Evrópusöngvakeppnin og gleðskapur í
tilefni af henni.
Veður þurrt og gott þannig að krakkarnir geta verið úti í fótbolta og öðrum leikjum þegar tími gefst til.
Bestu kveðjur
Sigga
Föstudagur 23. maí
Gærdagurinn var ljómandi góður. Undirbúningur undir hárgreiðslukeppnina var gríðarlegur og hugmyndaflugið
átti sér engin takmörk, útfærslurnar fjölbreyttar.
Eftir kvöldmat var horft á Evrópusöngvakeppnina, það þarf auðvitað ekki að nefna að mikil fagnaðarlæti brutust út
þegar ljóst var að Ísland hefði komist áfram.
Núna erum við að ganga frá og á leið í síðasta dagskrárliðinn. Héðan förum við af stað
heimleiðis milli 12 og 1.
Okkar fólk hefur staðið sig vel, tekið þátt í öllu og verið til fyrirmyndar.