Að venju fóru nemendur 7...
Að venju fóru nemendur 7. bekkjar Borgarhólsskóla í skólabúðir að Reykjum og dvelja þar 18. -22.
maí með fararstjórum sem að þessu sinni eru Domma húsvörður og hjónin Jóhann Pálsson og Huld Aðalbjarnardóttir sem skipta
með sér að vera með hópnum. Krakkarnir hafa safnað fyrir skólabúðardvölinni með ýmiss konar fjáröflun þó
ágóði af skólasamkomu vegi þyngst.
Borgarhólsskóli hefur verið þátttakandi í skólabúðunum frá stofnun þeirra í yfir 20 ár og eiga flestir
nemendur góðar minningar frá dvölinni því skólastarfið er fjölbreytt og mikil áhersla á að styrkja nemendur félagslega og
veita þeim verklega og fjölbreytta kennslu á ýmsum sviðum.
Við birtum hér ferðasöguna frá Reykjum í heild sinni:
1. dagur.
Lagt var af stað frá Borgarhólsskóla um morgunin áleiðis til Hrútafjarðar.
Mikill spenningur var í hópnum og áttu sumir afar erfitt með að sitja kyrrir þennan spöl til Reykja. Um
hádegisbilið var komið á áfangastað og tók Halldóra staðahaldari þar á móti hópnum. Útskýrði
staðhætti, reglur og hvers hún vænti af hópnum þessa vikuna sem dvalið yrði í skólabúðunum. Nemendur komu sér fyrir
í herbergjum og fengu hádegissnarl áður en tekið var til við dagskrá dagsins. Sambýlingar Borgarhólsskóla í ferðinni eru
7.bekkingar frá Vestmannaeyjum, hress og kátur hópur. Dagurinn leið að mestu áfallalaus utan smá aðhlynningar marðra fingra og
hitaslæðings. Um kvöldið sáu staðarhaldarar um kvöldvöku og gekk það mjög vel. Strax eru farnir að myndast vinahópar þvert
á skólana. Eitthvað gekk sumum illa að festa svefn er til þess var ætlast en þó ótrúlegt megi virðast var komin að mestu ró
upp úr eitt!
JRP
Dagur 2.
Eftir svefnlitla nótt hjá mörgum var vaknað klukkan átta. Áttu sumir fremur
erfitt með að opna augun og hafa sig framúr en það hafðist nú! Eftir herbergjaskoðun, morgunmat og tiltekt var tekið til við námið. Deginum
er skipt þannig að frá 9:30-12:30 er kennsla. 12:30-14:00 er hádegishlé með mat og tilheyrandi. 14:00-17:00 er kennsla. Milli 17:00 og 18:00 er frjáls
tími. 18:00-19:30 er kvöldmatur og frjáls tími. 19:30-21:00 er kvöldvaka. Síðan á að vera komin háttatími og ró milli 22:30
og 23:00. Þetta með róna hefur farið ofan garð og neðan hjá sumum og hefur verið afar gaman hjá einstaka aðilum langt fram yfir tilætlaða
ró. Eitthvað hefur borið á því að Amor hafi verið með í för og ekki loku fyrir það skotið að búið sé
að planleggja framtíðarsambönd milli Lands og Eyja. Allt er þetta samt innan siðsamlegra marka. Þau ástföngnu hafa eitthvað verið í
því að fara á milli vista á ókristilegum tíma og í óþökk tilsjónarmanna en oftar en ekki hafa hlutaðeigandi lofað
bót og betran. Sú hefð hefur skapast hjá Borgarhólsskóla að halda kvöldfund rétt fyrir háttinn þar sem farið er yfir
atburði dagsins og sagt frá því sem vel er gert og líka í leiðinni að koma með hugmyndir að því að gera enn betur.
Óhætt er að segja að krakkarnir hafa staðið sig afar vel og undan litlu að kvarta. Eitthvað er um hæsi og umkvartanir vegna hálsbólgu en
hvort það sé vegna of mikils talanda eða einhvers annars er erfitt að segja til um. Kvöldvakan um kvöldið var í umsjón nemenda skólanna og
stóðu þau sig með sóma í atriðunum. Fremur kalt og vindasamt hefur verið á Reykjum þessa daga en nú hyllir í sól og
sumaryl!
JRP
Dagur 3.
Vakið klukkan 8 eins og reglur gera ráð fyrir. Gott veður, sólskin og örlítill vindur lofa góðu! Við
morgunverðarborðið fáum við að vita að kennsla verður hefðbundin fram að hádegi en vegna veðurs verður aðeins kennt til klukka 16 og
þá gefst nemendum kostur á að leika sér í heitum læk við skólann nú eða fara í fjöruna, sem sagt vera utandyra
síðustu kennslustund dagsins. Og það varð nú meira fjörið! Það upphófst þvílíkt drullukast og sull að annað eins
hefur ekki sést á Reykjum! Okkar fólk lét ekki sitt eftir liggja í þeim slag og stóð sig með afbrigðum vel.... Staðarhaldarar voru
svo fram á nótt að þvo úr fötum og handklæðum. Síðan tók við kvöldmatur og kvöldvaka sem var í höndum
nemendanna með hjálp farastjóra sinna. Þar voru framin töfrabrögð ýmiskonar, tónlistarflutningur og leikir og þrautir og var
hugmyndaflugið ótakmarkað.Eftir kvöldhressingu var fólk í heimsóknum milli húsa, í fótbolta, nú eða bara í slökun
í setustofunni. Á kvöldfundinum með okkar fólki kom fram að þetta væri besti dagurinn!!!
Jóhann Páls kvaddi okkur um hádegisbilið og Huld tók þá við hans hlutverki. En því miður
þurftu 2 nemendur að fara með honum heim vegna veikinda og þótti okkar það mjög miður.
Allt í góðu standi hjá okkur.
DA
Dagur 4.
Nú voru sumir að verða svolítið framlágir í morgunsárið! Orðnir sárir í hálsi og
þreyttir mjög. Í dag var aðeins kennt til hádegis en þá var heilmikil hópmyndataka í íþróttasalnum og svo var
valfrjáls tími fram að miðdegishressingu. Þá tók við strangur undirbúningur fyrir mikla hárgreiðslukeppni þar sem
strákarnir voru módel. Var heilmikið hlaupið um gangana í leit að réttu fötunum og “make-up” vörur voru sendar milli herbergja.
Þótti mér mikið til koma hvað allir hjálpuðust að þrátt fyrir mikla keppni. Og ekki þurfti að efast um það að
góður árangur næðist! Þrír af okkur piltum komust í tíu manna úrslit og áttum við svo sigurvegarann! Mynd af honum og
“stílistum” hans koma vonandi fljótlega á heimasíðu skólans. Um kvöldið var svo diskótek sem byrjaði með skemmtiatriði
kennara . Eftir vel heppnaða skemmtun var svo haldið inn í kvöldhressingu og kom þá í ljós við gífurlegan fögnuð viðstaddra
að í boð var “ kók og prins” Svo var aðeins slakað á háttatímanum þetta síðasta kvöld og kom í ljós
á hefðbundnum kvöldfundi að þetta var albesti dagurinn!!!
DA
Dagur 5.
Heldur var nú fólkið þreytt þegar vakið var í morgun! En nú var bara að pakka og ganga
frá og fá svo úttekt á herbergin! Og auðvitað var allt í sóma hjá okkar fólki.Svo var mætt til
samverustundar í íþróttasalnum til heilmikillar hópmyndatöku og svo var farið í nokkra hópeflisleiki. Þá var kveðjustund
þar sem allir tókust í hendur og þökkuðu fyrir samveruna og skólabúðasöngurinn sunginn í síðasta sinn á þessum
stað. Í matsalnum voru svo afhentar viðurkenningar ýmis konar áður en borðað var. Þá var bara eftir að knúsast aðeins meira og
veifa bless.
Heim konum við svo seinni partinn og vil ég að lokum fyrir hönd okkar farastjóranna þakka krökkunum fyrir frábæra
ferð þar sem þau stóðu sig mjög vel og voru sjálfum sér og Borgarhólsskóla til sóma.
DA