Sjálfsmat Borgarhólsskóla

Samkvæmt lögum um grunnskóla eru sjálfsmatsaðferðir grunnskóla metnar með reglubundnum hætti...
Samkvæmt lögum um grunnskóla eru sjálfsmatsaðferðir grunnskóla metnar með reglubundnum hætti. Á þessu hausti mun Háskólinn á Akureyri taka sjálfsmatsaðferðir Borgarhólsskóla út og skila menntamálaráðuneyti niðurstöðu sinni. Þetta er í annað sinn sem aðferðirnar eru metnar en fyrst var það gert 2003.
 
 
Nokkur orð um fyrirkomulag sjálfsmats í Borgarhólsskóla.:
 
Gengið var út frá þeirri grunnforsendu strax í upphafi að vanda til verka við skólanámskrárgerð og búa námskrána þannig úr garði að hún væri metanleg og eins konar stjórnarskrá skólans sem allir starfsmenn /foreldrarráð kæmu sér saman um og væri virk í skólastarfinu. Lögð var áhersla á það að skólanámskráin væri stuttorð, gagnorð og tæki á sem flestum þáttum skólastarfsins.
Sjálfsmat skólans byggist á því að meta ¼ skólanámskrárinnar árlega og uppfæra með breytingum þann hluta sem metinn er á hverju ári. Í þessari vinnu hefur köflum fjölgað eftir þörfum, aðrir felldir út og gerðar nauðsynlegar breytingar að loknu mati. Búið er að fara tvisvar yfir flesta kafla skólanámskrárinnar með þessu vinnulagi og bæta nýjum við eftir þörfum.
 
Áhersla er lögð á það að sjálfsmatið sé sjálfsagður hluti skólastarfsins, unnið jafnt og þétt og ekki íþyngjandi.
 
Á hverju hausti fær skólastjóri 3 kennara, einn af hverju skólastigi, til að sitja í sjálfsmatsnefnd. Auk þess sitja í nefndinni skólastjóri sem stýrir fundum, aðstoðarskólastjóri eftir þörfum og grunnskólafulltrúi Norðurþings sem vinnur með nefndinni. Nefndin fundar að lágmarki 10 sinnum á önn, stýrir vinnunni við sjálfsmatið og kallar aðra til sem málið varðar.
 
Þegar nefndin hefur gert tillögur að breytingum, eftir að hafa metið einstaka kafla, eru drögin send skólastjóra sem leggur þau fyrir kennararafund /foreldraráð, nú skólaráð, til umsagnar og umfjöllunar. Þar sem skólaráð er nýlega stofnað við skólann mun það fjalla um tillögur yfirstandandi skólaárs. Þegar skólaráðið hefur haft tækifæri á því að koma athugasemdum á framfæri er skólanámskráin uppfærð af skólastjóra.
 
Undirritaður hefur lagt áherslu á það að þessi vinna sé stöðug, einföld og hluti af stofnanamenningu Borgarhólsskóla.
 
Sjálfsmatsskýrslurnar má sjá í valglugganum hér til vinstri - undir sjálfsmatsnefnd.
 
HV