Skíðadagar

Í fyrstu kennsluviku eftir jólafrí var góður skíðasnjór hér á Húsavík og mikið farið á skíði í fjallið...
Í fyrstu kennsluviku eftir jólafrí var góður skíðasnjór hér á Húsavík og mikið farið á skíði í fjallið. Lagðar voru gönguslóðir víða um bæinn og nágrenni og notuðu  bæjarbúar sér þetta óspart. Þegar svona hagar til er Borgahólsskóli sérlega vel staðsettur, örstutt í skíðabrekkuna og þægilegt að skreppa úr skólanum í Melinn.  Fáir skólar geta státað af slíkri aðstöðu.
Við í skólanum reynum að nýta okkur þessi forréttindi þegar aðstæður leyfa. Fyrstu skóladagana eftir áramót voru kjöraðstæður, nægur snjór og gott veður, var því efnt til skíðaferða úr skólanum 7. og 8. janúar s.l. á venjulegum skóladegi frá kl. 10- 12. Yngstu nemendur fyrri daginn og elstu seinni daginn.  Nemendur fengu tækifæri til að spenna á sig skíðin heim við skóla og fara í fjallið að renna sér  eða prófa að ganga á skíðum í troðinni braut á túninu sunnan  Framhaldsskólans. Áhugamenn um skíðagöngu útveguðu gönguskíðabúnað frá Skíðasambandi Ísland sem nemendur gátu fengið lánaðan. Þeir sem ekki áttu skíði komu með sleða eða snjóþotur. Starfsmenn skólans, foreldrar og fleiri voru til aðstoðar.
Þegar við fáum góðan skíðasnjó munum við skreppa í fjallið af og til,  holl íþróttaiðkun og útivera eykur manndóm og hefur forvarnargildi,  flestar rannsóknir benda til þess.
 
HV