Skólaferðalag 10. bekkjar

Það var fríður og föngulegur hópur sem lagði af stað í skólaferðalag ásamt kennurum sínum og Rúnari bílstjóra snemma að morgni miðvikudaginn 26...
Það var fríður og föngulegur hópur sem lagði af stað í skólaferðalag ásamt kennurum sínum og Rúnari bílstjóra snemma að morgni miðvikudaginn 26. maí. Ferðin byrjaði vel, allir voru mættir og lagt var af stað á réttum tíma. Ferðalagið allt gekk eins og í sögu, allir voru jákvæðir og stóðu sig einstaklega vel í öllum tímasetningum. Ekki nóg með það, krakkarnir voru bara hreint út sagt æðislegir og fengu sérstakt hól fyrir það hvað hópurinn var samstilltur og allir góðir hver við annan.
Það var stíf dagskrá sem beið þeirra. Fyrst var ekið á Nesjavelli þar sem allir fóru í Adrenalíngarðinn. Þar var klifrað upp á 10 metra háan staur sem er alls ekki létt, rólað í 12 metra hárri rólu og hlaupið um í háloftabrautinni. Síðan var keyrt til Reykjavíkur, borðað á Nauthóli við Nauthólsvíkina og þaðan stormað í ,,Go-kart“ þar sem ekið var af mikill hörku, enda voru margir sárir á bakinu eftir aftanákeyrslur og barning í brautinni. Þá var bara að koma sér í Bústaði þar sem hópurinn gisti og undirbúa sig fyrir svefninn enda flestir orðnir þreyttir eftir langan dag. Þó voru nokkrir sem ekki voru búnir að fá nóg og fengu sér smá miðnæturgöngu en það fylgir ekki sögunni hvað kennurum fannst um það.
 
Klukkan átta næsta morgun ræstu Siggi og Stefán Óli alla með því að setja tónlistina í botn, ekki voru allir ánægðir með það en kennararnir voru sáttir og alveg lausir við allt tuð í þreyttum nemendum og svo heillaði Rúnar alla  með morgunmatnum.
Það fyrsta sem gert var þennan dag var að fara í litbolta, það var mjög skemmtilegt þó að allir hafi verið meira og minna útataðir í marblettum á eftir. Við ræðum ekkert úrslitin hér.
Eftir litboltann var farið í Bláa Lónið og þar var svamlað um stund í frábærri sumarblíðu. Þá var farið á búðarrölt í Smáralindinni og í mat á Pizza Hut. Eftir matinn var síðan farið í keilu og spilað á einum átta brautum. Á leiðinni í Bústaði var ákveðið að koma við í sjoppu til að fyrirbyggja miðnæturrölt. Síðan var bara spjallað og spilað, hlegið og grátið, drottningar nuddaðar, Snædís knúsuð og kvödd en að lokum fóru allir að sofa.
 
Þriðji og síðasti dagurinn byrjaði svipað og annar, ræst með tónlist kl. 7:30 , farið í morgunmat og síðan pakkað og gengið frá. Það voru þreyttir krakkar sem lögðu af stað heimleiðis kl.10 en það var allt í lagi, menn voru glaðir og gátu haldið áfram að sofa í rútunni. Leiðin lá norður í Skagafjörð og allir sem einn fóru í flúðasiglingu. Það var líka rosalega gaman, margir stukku í ána, öðum var hent út í og svo var stoppað þar sem mátti stökkva í ána ofan af kletti.
 
Það voru þreyttir en glaðir kennarar sem komu með hópinn heim til Húsavíkur á tilsettum tíma og þökkum við bæði Rúnari Óskarssyni og þessum frábæra hópi fyrir mjög svo ánægjulega og vel heppnaða ferð.
 
Umsjónarkennarar 10. bekkja
Sigrún og Ada