Skólasamkoma

18...
18. mars lauk Skólasamkomu Borgarhólsskóla. Sýndar voru 5 sýningar og var aðsókn góð. Að venju var dagskráin fjölbreytt. 1. bekkur sýndi dans, skólakórinn söng, 4. og 5. bekkur spilaði á marimba og jembe með dansi, tónlistaratriði flutt og nemendur 7. bekkjar sýndu leikritið Vatnsberana eftir Herdísi Egilsdóttur í leikstjórn Önnu Bergljótar Thorarensen og Snæbjarnar Ragnarssonar. Aukasýning á Vatnsberunum var keypt af foreldrafélagi Grænuvalla. Ágóði skólasamkomu fer í ferðasjóð 7. bekkjar sem dvelur í skólabúðum  að Reykjum í Hrútafirði  í maí. Samkoman var öllum sem að henni stóðu  til sóma. Myndir má sjá hér á vef tónlistarskólans.
Skólasamkomur hafa alla tíð skipað veglegan sess við Barnaskóla Húsavíkur, síðar Borgarhólsskóla  og verið fastur og mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Sú hefð hefur skapast að 7. bekkur setji upp vandaða leiksýningu á skólasamkomu undir stjórn kunnáttufólks og í samstarfi við umsjónarkennara, foreldra og Tónlistarskóla Húsavíkur.   Reynt er jafnan að virkja sem flesta  nemendur við sýningarnar, helst alla.  Eftir að unglingadeildir komu til sögunnar í Borgarhólsskóla hafa nemendur 10. bekkjar líka sett upp leiksýningu undir stjórna leikstjóra. Tvisvar á skólagöngu sinni fá því nemendur tækifæri til að taka þátt í stórum uppfærslum leikrita eða söngleika. Auk þess eru minni leikrit og sýningar á dagskránni við ýms tækifæri. Við í Borgarhólsskóla lítum svo á að vel útfært leiklistarstarf þjóni  mannræktarmarkmiðum grunnskólans og samfélagsins. Leiklistarmenning,  sem Húsavík er þekkt fyrir, á rætur í  starfi skólanna og verður vonandi um ókomin ár.
HV