Skólaslit

Föstudaginn 4...
Föstudaginn 4. júní var Borgarhólsskóla slitið við hátíðlega athöfn í sal skólans. Skólaslitin voru í þrennu lagi, miðstig kl. 10, yngsta stig kl. 11 og unglingastig kl. 14.
Að venju komu margir foreldrar með börnum sínum.   Nemendur fluttu tónlistaratriði af ýmsu tagi og í ræðu sinni lagði skólastjóri út af  lokagrein í skólareglum Barnaskóla Húsavíkur frá því Benedikt Björnsson stýrði skólanum.
,,Að minnast þess ætíð að allt sem ég gott geri og rétt, geri ég vegna sjálfs míns til þess að auka manngildi mitt. Og ég vil ástunda að halda reglur þessar til þess að geta verið félagi í hópi vaxandi heiðursmanna.“
Halldór  skólastjóri og Gísli aðstoðarskólastjóri kvöddu viðstadda með eftirfarandi orðum:
 ,,Við félagar höfum fylgst lengi að, erum jafnaldrar og bekkjarbræður úr Barnaskóla Húsavíkur og Gagnfræðaskóla Húsavíkur og vorum á svipuðu róli  í Kennaraskóla Íslands. Gísli hefur verið hér uppstyttulaust frá 1972, fyrst sem kennari til 1985 og síðan aðstoðarskólastjóri. Halldór sem kennari hér frá 1980 til 1987 og frá 1987 skólastjóri að frátöldu námsleyfi.
 Við komum okkur saman um það að halda ekki langar ræður um störf okkar hér í skólanum  en eigum góðar minningar og teljum okkur forréttindamenn að hafa fengið að vinna að því með kennurum og öðru samstarfsfólki, nemendum, sveitarstjórnum, skólanefndum, starfsfólki bæjarskrifstofu og foreldrum að stjórna skólastarfi Barnaskóla Húsavíkur. Síðar að eiga þátt í að móta og þroska skólastarf Borgarhólsskóla frá því að hann var á hugmyndastigi. Okkur finnst Borgarhólsskóli starfa að flestu leyti við góðar aðstæður með góðu starfsfólki og höfum lagt okkur eftir því að heimilisandinn hér sé örvandi og  vingjarnlegur með rætur í því besta sem við þekktum frá gamalli tíð hér á Húsavík.
 Þökkum samstarfið við Tónlistarskólann sem alla tíð hefur búið í skólahúsinu með okkur.   Það hefur verið sameiginlegt hugðarefni okkar með mörgu góðu fólki  að auðvelda Húsvíkingum gott tónlistarnám. Höfum unnið að því m.a. með tónlistarkennurum og skólastjórunum Sigurði Hallmarssyni,  Steingrími Sigfússyni, Hólmfríði Benediktsdóttur, Úlriki Ólasyni og síðast Árna Sigurbjarnarsyni, sem starfað hefur með okkur síðastliðin 23 ár.  Vonum að áfram verði haldið á sömu braut.
 Við erum báðir farnir að fá þriðju kynslóðina undir okkar stjórn og því kjörið að hætta meðan við erum í góðum færum og rétta nýju fólki keflið. Óskum Þórgunni Reykjalín Vigfúsdóttur skólastjóra, og nýráðnum deildarstjórum Önnu Birnu Einarsdóttur, Brynhildi Þráinsdóttur  og Hönnu Ásgeirsdóttur, starfsmönnun öllum, nemendum og foreldrum alls góðs í framtíðinni“.
 
Eftirtaldir nemendur unglingadeilda fengu viðurkenningu frá Sóknarnefnd Húsavíkurkirkju fyrir góðar framfarir á skólaárinu:
8.bekkur 8. stofu: Hjörvar Gunnarsson  
8.bekkur 9. stofu: Brynja Matthildur Brynjarsdóttir 
9.bekkur 10. stofu: Ásta Soffía Þorgeirsdóttir  
9. bekkur 11. stofu: Jón Ásþór Sigurðarson 
10.bekkur 18. stofu:  Sigmar Darri Unnsteinsson  
10.bekkur 15. stofu:  Jónína Rún Agnarsdóttir 
 
Að þessu sinnu voru 42 nemendur brautskráðir úr 10. bekk. 15 þeirra stunduðu jafnframt fjarnám í framhaldsskólaáföngum og stóðu sig vel, sumir með yfir 15 einingar í farteskinu.
Eftirtaldir nemendur fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur á grunnskólaprófi:
Íslenska: (Benediktsverðlaun):   Ásgerður Ólöf Ásgeirsdóttir                               
Íslenska: skapandi skrif (Benediktsverðlaun): Magnea Ósk Örvarsdóttir           
Enska: Ruth Ragnarsdóttir                                                    
Danska: Anna Jónína Valgeirsdóttir                                
Stærðfræði: Ásta Soffía Þorgeirsdóttir (9. bekk)                                                
Náttúrufræði: Magnea Ósk Örvarsdóttir                                        
Samfélagsfræði: Sindri Ingólfsson                                  
Íþróttir: Elma Rún Þráinsdóttir 
Norska: Sigmar Darri Unnsteinsson
Sænska: Kormákur Darri Bjarkason                                            
Listgreinar: Sigurveig Gunnarsdóttir     
 
Skólanum barst peningagjöf frá handknattleiksdeild Völsungs sem nota á til að kaupa skjávarpa í samkomusalinn.
Sindri Ingólfsson nemandi í 10. bekk ávarpaði viðstadda f.h. nemenda. Guðrún Kristinsdóttir flutti ræðu fyrir hönd foreldra 10. bekkinga og afhenti skólanum að gjöf uppstoppaðan smyril í tilefni af því að yngsta barn hennar útskrifast nú úr skólanum. Gunnlaugur Stefánsson formaður skólanefndar þakkaði Halldóri og Gísla og afhenti þeim að skilnaði málverk eftir Sigurð Hallmarsson f.v. skólastjóra.
Að skólaslitum unglingadeilda loknum var útskriftarnemendum, fjölskyldum þeirra og starfsmönnum boðið að þiggja veitingar í sal skólans.
 
HV