Skólaslit Borgarhólsskóla

Skólaslit Borgarhólsskóla fóru fram í sal skólans föstudaginn 1...
Skólaslit Borgarhólsskóla fóru fram í sal skólans föstudaginn 1. júní. Athafnir á yngsta og miðstigi voru kl. 10 og 11. Skólastjóri ávarpaði gesti, nemendur fluttu tónlist og enduðu með samverustund með kennara sínum.
 Degi fyrr voru nemendur og forráðamenn yngsta og miðstigs kallaðir til einkaviðtals við umsjónarkennara og fengu námsmat vorannar í hendur.
 
Kl. 14 voru skólaslit unglingadeilda og útskrift 10. bekkinga. Hátíðleg athöfn þar sem skólastjóri ræddi skólaárið og kvaddi nemendur 10. bekkjar og hafði sérstaklega orð á því hve bragur í unglingadeildum  væri góður og greinileg framför um margt.  Í upphafi athafnar spilaði Kristján Elinor Helgason á píanó.
 
 Eftirtaldir unglingar fengu sérstaka viðurkenningu  fyrir framfarir á skólaárinu:  Erna Sigríður Hannesdóttir,  Ásgeir Hallgrímsson,  Magnea Rún Hauksdóttir,  Hilmar Örn Kárason,  Halldór Guðni Traustason,  Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir. Sóknarnefnd Húsavíkurkirkju gaf verðlaunin að þessu sinni.
 
Nemendur 8. og 9. bekkjar geta  tekið einstök samræmd lokapróf og þreyttu að þessu sinni 11 nemendur 9. bekkjar samræmt próf í stærðfræði, 3 í náttúrufræði, 13 í dönsku, 21 í ensku og 4 í íslensku. Flestir þessara nemenda munu stunda nám í framhaldsáföngum á framhaldsskólastigi næsta ár. Tveir nemendur í 9. bekk fengu verðlaun fyrir hæstu einkunn í skólanum  á samræmdu prófi: Aníta Gunnlaugsdóttir í íslensku og Ragnar Pálsson í ensku. Einnig fékk Silja Árnadóttir 9. bekk viðurkenningur fyrir góðan árangur í norsku. Símon Böðvarsson í 9. bekk lauk stúdentsprófi í dönsku.
 
Að venju fengu nemendur 10. bekkjar sem sköruðu fram úr viðukenningu. Þeir eru:
Benediktsverðlaun fyrir íslensku Nói Björnsson, Benediktsverðlaun fyrir ritfærni Ármann Gunnlaugsson, stærðfræði Nói Björnsson, náttúrufræði Nói Björnsson, dönsku Sigríður Karlsdóttir, samfélagsgreinar Hafrún Olgeirsdóttir, ensku Kolbeinn Karlsson, íþróttir: Ármann Gunnlaugsson, listgreinar Kristín Inga Axelsdóttir. Hið íslenska bókmenntafélag og Menntamálaráðuneytið verðlaunuðu nemanda sem fékk hæsta einkunn samanlagt á samræmdum prófum og hlaut Nói Björnsson viðurkenninguna.
 
Kristjana Kristjánsdóttir forstöðumaður Keldunnar  afhenti eftirtöldum nemendum 10. bekkjar viðurkenningu fyrir félagsstörf: Óskari Ólafssyni, Helgu Sigurjónsdóttur, Hermanni Pálssyni og Halldóri Guðna Traustasyni.
 
18 nemendur 10. bekkjar og 6 nemendur 9. bekkjar stunduðu nám í einum eða fleiri framhaldsskólaáföngum samhliða skyldunámi sínu og fengu í veganesti  frá 3 einingum upp í 18 einingar. Auk þess fengu nokkrir nemendur sem stunda viðurkennt tónlistarnám framhaldsskólaeiningar samkvæmt ákveðnum reglum.
 
Ármann Gunnlaugsson flutti ávarp fyrir hönd 10. bekkinga og Lísa tónlistarkennari við undirleik Aladars söng fyrir viðstadda. Útskriftarnemendur og foreldrar þeirra þáðu veitingar í boði skólans að athöfn lokinni.
 
Halldór Valdimarsson