Með svokölluðum Skólatöskudögum í grunnskólum hafa iðjuþjálfar lagt sitt af mörkum til að aðstoða nemendur að átta sig á mikilvægi þess að nota skólatöskuna rétt...
Með svokölluðum Skólatöskudögum í grunnskólum hafa iðjuþjálfar lagt sitt af mörkum til að aðstoða nemendur að
átta sig á mikilvægi þess að nota skólatöskuna rétt. Auk fræðslu er boðið upp á vigtun á skólatöskum til
að kanna hvort þyngd töskunnar sé hæfileg fyrir barnið.
Fræðslan fer fram í Borgarhólsskóla dagana 21. - 25. september í 4., 7. og 10. bekk.
Mikilvægt er að kenna börnum og ungmennum að bera ábyrgð á
eigin líkama og leikur rétt notkun skólatöskunnar þar stórt hlutverk þar sem nemendur bera hana í um 180 daga á ári í minnst
10 ár. Nauðsynlegt er fyrir börn og fjölskyldur að átta sig á hvernig best er að nota og bera töskuna auk þess að raða í hana
á æskilegan hátt. Að kaupa góða tösku handa börnum er því ekki nóg ef þau kunna ekki að nýta sér
þau lykilatriði sem skipta máli við notkun hennar til að minnka líkur á líkamlegum kvillum. Stoðkerfisvandi barna og ungmenna er vaxandi
vandamál í nútíma samfélagi og getur torveldað börnum þátttöku í skóla, starfi og tómstundum um alla tíð.
Nauðsynlegt er því að samfélagið í heild sé meðvitað um áhrif
rangrar notkunar skólatöskunnar.