Styrkur til skólans – aukin hreyfing á skólatíma

Skólinn fékk nýlega úthlutað styrk frá Íþróttasambandi fatlaðra í tengslum við verkefni á vegum félagsmálaráðuneytis. Veittir voru styrkir í verkefni sem hafa eftirfarandi að meginmarkmiði; að efla heilbrigði fatlaðs fólks og auka möguleika íþróttafólks með fötlun/sérþarfir á þátttöku í fjölbreyttu íþróttastarfi, að styðja við starf á sviði íþrótta fatlaðra og efla samstarf við almenn íþróttafélög, að hvetja til rannsókna, þróunar nýrra greina, þjálfaranámskeiða og hreyfiþjálfunar í skólum/sérdeildum og að styðja við hugmyndir sem stuðla að virkni og þátttöku einstaklinga með fötlun/sérþarfir í íþróttastarfi á Íslandi og vinna að jafnrétti á sviði íþróttastarfs.

 

Áhersla verkefnisins var samstarf íþróttafélaga, skóla og sveitarfélaga. Leitað er leiða og tækifæra í íþróttum sem og að stuðla að vitundarvakningu og virkni iðkenda með mismunandi stuðningsþarfir. Það er ánægjulegt að segja frá því að skólinn fékk sjöhundruð þúsund krónur í styrk sem mun koma sér vel til að styðja við þennan hóp. Áhersla skólans voru nemendur með sérþarfir á aldrinum ellefu til fjórtán ára. Stefnt er að því að auka markvissa hreyfingu í skólastarfinu. Liður í því er m.a að búa til mismunandi langar gönguleiðis og merkja þær með sjónrænum hætti. Útfærsla er unnin í samstarfi við íþróttafélagið og sveitarfélagið. Jafnframt að vinna verkefnið í samstarfi við aðra áhugasama.