Síðastliðinn miðvikudag fór 4...
Síðastliðinn miðvikudag fór 4. bekkur ásamt starfsmönnum og nokkrum foreldrum í sveitaferð. Ferðin var skipulögð af Atla
Vigfússyni bónda á Laxamýri í Reykjahverfi. Hafi hann kæra þökk fyrir góða ferð en hann var jafnframt fararstjóri í
ferðinni. Ferðin tókst í alla staði vel og börnin skemmtu sér vel og fræddust mikið störf í íslenskri sveit.
Lagt var af stað frá Húsavík í rútu um miðjan morgun í blíðskaparveðri, sól og stillu. Það var Rúnar
Óskarsson sem var bílstjóri. Börnin voru spennt og full tilhlökkunar hvað biði þeirra í sveitinni. Haldið var suður að Laxamýri
þar sem Atli beið hópsins og þaðan ekið í Kvíaból í Þingeyjarsveit. Þar eru búa hjónin Marteinn Sigurðsson og
Kristín Björg Bragadóttir. Þau reka stórt kúabú með um 60 mjólkurkýr og í fjósinu er mjaltaþjónn sem
sér um mjaltir. Börnin sáu þegar kýr var mjólkuð af vélmenni og vakti það áhuga þeirra og ekki síður fullorðna
fólksins. Börnin sýndu nýfæddum kálfi sérstaka athygli. Frá Kvíabóli var ekið að Rauðá í sömu sveit
þar sem Vilhjálmur Grímsson bóndi tók á móti okkur. Þar er rekið fjár- og geitabú. Geiturnar heilluðu börnin,
kiðlingarnir hoppuðu og skoppuðu um húsin og börnin með.
Frá Rauðá var ekið stuttan spöl í Fosshól við Skjálfandafljót og þar snæddar pylsur í
góðu yfirlæti hjá ferðaþjónustubóndanum Gesti Helgasyni en það var Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga sem bauð upp
á pylsurnar. Eftir hádegisverðinn var stefnan tekin norður. Ekið var yfir Fljótsheiði, um Reykjadal og Aðaldal og í Laxamýri. Þessa
leið var sungið hástöfum í rútunni svo þakið rifnaði næstum af.
Á Laxamýri var hópnum skipt í tvennt og helmingurinn hélt áfram til Saltvíkur í Norðurþingi. Á
Laxamýri sáu börnin rúning á sauðfé og ullarvinnslu. Hvert barn fékk unnið ullarband með sér heim. Einnig skoðuðu börnin
hænsn, kanínur og dúfur. Í Saltvík fóru börnin á hestbak við mikinn fögnuð.
Um kaffileyti var komið heim til Húsavíkur með skít undir stígvélunum, ilmandi sveitalykt og bros á vör eftir
skemmtilegan og fróðlegan dag í sveitinni. Öllum sem gerðu ferðina ánægjulega og skemmtilega þökkum við fyrir. Hér er hægt að skoða myndir.