4...
4.bekkur fór í sveitaferð miðvikudaginn 24.mars. Ferðin var farin á vegum Húsdýraskólans sem
Atli á Laxamýri hefur umsjón með. Byrjað var á að keyra á rútu að Laxamýri þar sem Atli tók á móti okkur og
kynnti ferðina, þar fengum við að skoða kindur, hænsni og kanínuunga. Sumum þótti lyktin í fjárhúsunum ansi sterk og marga
langaði heim með kanínuunga. Atli sýndi okkur einnig myndir af litaafbrigðum íslensku húsdýranna.
Þá var farið upp í rútuna aftur og haldið af stað að Hraunkoti í
Aðaldal, þar sem Kolbeinn og Þóra tóku á móti okkur. Í Hraunkoti fengum við að sjá kýr, kindur, kálfa og naut, sem
vöktu mesta athygli vegna þess að þau voru hálf óróleg, sem þótti mjög spennandi og upp komu umræður um hvort óhætt
væri að vera þarna í rauðum úlpum. Þegar við höfðum þakkað heimilisfólkinu að Hraunkoti fyrir okkur og kvatt héldum
við af stað sem leið lá inn Reykjadalinn, yfir Fljótsheiði og að Rauðá, þar sem Vilhjálmur bóndi tók á móti
okkur. Hjá honum fengum við að skoða naut, kindur og geitur. Töluvert var af kiðlingum í fjárhúsinu og vöktu þeir mikla lukku,
því það mátti halda á þeim. Allir fengu að prófa að halda á og láta taka af sér mynd.
Næsti viðkomustaður var Dalakofinn á Laugum, þar biðu okkar heitar pylsur og safi til
að metta svanga maga. Upp í rútuna var farið aftur þegar allir höfðu borðað. Nú var stefnan tekin á Saltvík. Þess ber að
geta að í rútunni var mikið sungið, bæði lög úr söngheftum sem Eirin og Unnur komu með og einnig lögin hans Ingó Veðurguðs
sem voru mjög vinsæl, það þurfti engin sönghefti með þeim lögum. Benni Donda var bílstjórinn okkar í þessari ferð og
fékk hann mikin stuðning því krakkarnir sungu all oft „Áfram áfram áfram bílstjóri“
Í Saltvík tóku Bjarni Páll og Elsa á móti okkur og kynnti Bjarni
Páll íslenska hestinn fyrir okkur. Allir fengu að fara á bak og sumir fengu líka að teyma. Að þessu loknu var farið í rútuna aftur og
keyrt heim á leið. Að lokum viljum við þakka öllum sem tóku svona vel á móti okkur í sveitaferðinni kærlega fyrir og
sérstakar þakkir til Atla fyrir leiðsögnina.
Nemendur og kennarar í 4.bekk Borgarhólsskóla