- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Eftir áratuga þjónustu við börn og ungmenni láta þau Jóa Údda, Maggi og Pálmi af störfum við Borgarhólsskóla. Jóhanna Guðjónsdóttir, Magnús Pétur Magnússon og Pálmi Björn Jakobsson hafa öll starfað við kennslu á Húsavík og víðar síðastliðna áratugi og líta nú til baka. Jóa varð sextug fyrir nokkru en hún var á svokallaðri 95-ára reglu og þeir félagar hafa báðir náð sjötugsaldri.
Jóa kláraði Íþróttakennaraskólann árið 1982. Hún kenndi einn vetur í Ölduselsskóla í Reykjavík, var þá einn vetur í Noregi að vinna í fiski. Fluttist aftur heim til Íslands og kenndi tvö ár í Stórutjarnarskóla í Ljósavatnsskarði. Jóa starfaði í Samvinnubankanum á Húsavík á sumrin og hugðist starfa þar áfram þegar hún var nöppuð til að kenna og hefur starfað við kennslu á Húsavík síðan 1988.
Maggi útskrifaðist úr Kennaraskólanum 1971 og fór beint til Húsavík. Á eftir Hóffý sinni eða Hólmfríði Benediktsdóttur sem starfaði við Tónlistarskóla Húsavíkur. Hér starfaði hann í eitt ár við Barnaskóla Húsavíkur og fór svo í framhaldsnám og lauk menntadeild Kennaraskólans sem er einskonar stúdentspróf í dag.
Maggi kenndi í eitt ár á Akranesi í upphafi níunda áratugarins, sömuleiðis á Akureyri í upphafi tíunda áratugarins og þá eitt ár í Kópavogi um aldamótin. „Það er einhver besta reynsla sem ég bý að“, segir Maggi. Að hafa farið aðeins um og víkkað sjóndeildarhringinn, bætir hann við.
Pálmi lauk námi í Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1972 en leið hans lá beint á sjó að loknu námi. Síðar langaði hann að nýta námið og ákvað að fara í kennslu. Hann hóf sinn kennsluferil á Þórshöfn þar sem hann var ráðinn íþróttakennari árið 1980 og starfaði þar í tvö ár sem slíkur. Árið 1982 var hann ráðin til Gagnfræðiskóla Húsavíkur en var lánaður þaðan yfir í Barnaskóla Húsavíkur.
Öll þrjú búa að mikilli reynslu og þekkingu. Þegar þau hófu kennslu var skólinn tvísetinn, þ.e. hluti nemenda komu fyrir hádegi og hluti eftir hádegi. Kennsluskylda kennara var þá 36 tímar og þeir félagar kenndu jafnvel 40 kennslustundir á viku. Kennsluskylda kennara í dag er 26 kennslustundir. Báðir náðu þeir félagar að kenna íþróttir í gamla íþróttasalnum á Húsavík þar sem Jóa stundaði íþróttir sem nemandi.
Þau segjast öll vera sammála um að kennaramenntun þótti góður almennur grunnur og þess vegna völdu þau að mennta sig sem kennarar. Magga fannst fátt heillandi við kennsluna í upphafi en á þessum tíma hafi fátt verið í boði. Valið stóð á milli kennaraskólans, bændaskóla eða iðnskóla. Hann hafi verið í sveit og hafði sömuleiðis áhuga á hverskonar iðn en valdi kennaranámið. Hann segist alls ekki sjá eftir því og heillaðist af þessu mikilvæga starfi sem kennarinn er. Pálmi hafi alltaf gaman af samveru með börnum og hafði mikinn áhuga á íþróttum. Jóa var sjálf mikið í íþróttum og ætlaði sér alltaf í íþróttakennaraskóla en endaði með að kenna minnst íþróttir.
Maggi og Pálmi segjast strax hafa náð saman og myndaðist vinátta þeirra í millum sem lifir enn. Þegar Maggi fór til Bandaríkjanna í nám kom hann heim með fullt af kennslubókum sem þeir félagar þýddu og aðlöguðu til að nota í sinni kennslu. Þeir sóttu um styrk á sínum tíma til námsefnisgerðar sem þeir fengu og voru í vinnu mest allt sumarið 1990 auk þess að hittast alltaf á laugardagsmorgnum til að búa til efni og undirbúa. En þeir kenndu árgangi saman. „við vorum með ástríðu fyrir starfinu og vorum til í allt“, segja þeir báðir og hlæja glottandi. Þeir bæta við að fyrir þetta fékkst ekki króna enda náði hugsun þeirra langt út fyrir það og lengra. Allt annað starfsfólk naut góðs af og gerði lengi eftir þetta. Efnið sem þeir bjuggu til var þá ekki til á Íslandi og ekki í framleiðslu. Það er óhætt að segja að þeir hafi verið langt á undan sinni samtíð. Pálmi var þá og er enn mikið að fikta við tölvur og segist sjálfur hafa verið nokkuð klár á þessi nýmóðinstæki þess tíma. Þeir létu nemendur sjálfa hanna og teikna myndir inn í námsefnið. Jóa segist hafa notað efni frá þeim félögum í sinni kennslu og haft mikið gagn af.
Frá því að þau hófu kennslu hefur ýmislegt breyst. „Það var mikil breytingar þegar tölvurnar komu“, segir Pálmi og bætir við að hann hafi fyrst þá farið að skrifa vel. „Ég man þegar ljósritunarvélin kom“, segir Jóa og segir að það hafi verið mikið framfararskref. Þá var hægt að gera svo mikið í einu. Maggi segir að auðvita hafi verið minna í boði og þess vegna meiri yfirsýn. „Námið var einhvern vegin áþreifanlegra þegar það voru námsbækur“, segir hann og bætir því við að kennarar voru í betri tengslum við námsefni sem þeir þurftu að koma til skila. Þau eru öll sammála um að kennarar eyddu meiri tíma í vinnunni sinni en í dag en starfið hafi breyst mikið. Sömuleiðis eru þau sammála um að krakkar lesi miklu minna í dag en þá og telja að það sé erfiðara að halda lestrinum að þeim. „En auðvita þurfa nemendur ekki að muna neitt í dag“ segir Jóa og hlær. „Já, það vantar alla heilaleikfimi“, segir Pálmi strax og Maggi grípur fram í „hvers vegna erum við hætt að kenna ljóð og bókmenntir“ og Pálmi svarar með því að spyrja um margföldunartöfluna. Jóa segir að það skortir að láta nemendur þjálfa sig meira og gera mistök.
Rétt eins og kennarastarfið sjálft hefur tekið miklum breytingum þá verða breytingar í skólasamfélaginu. Þau telja að krakkar leiki sér minna og öðruvísi en áður. Eins að það sé nokkur raun að halda krökkum að leik. Í dag séu foreldrar skelkaðri um börn sín og þurfa sífellt að vita hvar þau séu. Það skortir á ábyrgðartilfinningu hjá krökkum og það virðist vera minni tími eftir til að sinna þeim. Það þurfi að forgangsraða meira í þeirra þágu.
Eðli kennarastarfsins hefur ekki breyst. „Þetta snýst um húmor og vera ekki viðkvæmur fyrir sjálfum sér“ segir Pálmi og telur mikilvægt að vera tilbúinn að taka utan um öll þessi börn. Jóa segir að það sé lykilatriði að kennari sé góður við nemendur, sýni hlýju og ákveðni í senn. Maggi bætir svo við að umburðarlyndi sé forsenda í kennarastarfinu.
Í dag sé fólk tilbúnara að gagnrýna kennara og skortir virðingu fyrir starfinu. En þau spyrja sjálfan sig hvort kennarar beri nægilega mikla virðingu fyrir eigin starfi? Kennarar eigi að ganga hnarreistir og vera stoltir af eigin starfi. Heimilin virðast sinna náminu síður en var og hugsanlega gerðar minni kröfur til menntunar en áður.
„Við höfum enst hérna vegna þess að okkur líður vel í starfi – hér er gott að starfa“, segir Maggi. Það eru vandasömustu störfin að fást við annað fólk, að skilja einstaklinginn og hvernig honum líður. Oft veit maður meira en maður má tala um segir hann. Jóa telur að líðan nemenda hafi breyst og áður hafi kennarar varið meira af tíma sínum til að gefa nemendum af sér en bætir við að kennarar eru meira inn í hugarheimi nemenda nú en áður. „Það er enginn nemandi leiðinlegur“, segir Pálmi og hlær. Hann segir að sem kennari þurfi maður að umgangast ótrúlega fjölbreyttan hóp fólks og þarf og verður að taka tillit til þess.
Skóli er mikilvægur vinnustaður og þau eru öll sammála um að hér sé gott að starfa, fólki komi vel saman og að nemendur gefi manni mikið. „Það er alltaf tilhlökkun að fara í vinnuna og það segir eitthvað um vinnustaðinn“ segir Pálmi, „og þig Pálmi“, segir Maggi og þeir hlægja. Jóa segir að það megi ekki gera of mikið úr hlutunum og viðhalda vandamálum, þau séu til að leysa þau. Þau segja öll að krakkarnir gefi mest og í samskiptum við alla þessa krakka hafi þau sjálf lært ýmislegt og eigi margar mjög góðar minningar. „Kennari verður að tileinka sér að hafa gaman í vinnunni – annars ætti hann að hætta“ segir Maggi kíminn með alvöru svipbrigðum.
Þeirra bíða nú önnur verkefni og áskoranir. Jóa segist ætla njóta lífsins, ferðast og hugsa um barnabörnin. Ekki síst ætlar hún að njóta tímans á morgnanna með kaffibollann sinn. Maggi ætlar að lesa bækur, hann þurfi að sinna garðinum sínum, hestunum og barnabörnunum. Bara að vera – eins og hann segir sjálfur. Pálmi segist ekki hafa neinar áhyggjur enda finnur hann sér alltaf eitthvað að gera. Fyrsta verkefnið er að komast til útlanda í sól og sumar.
Við viljum færa þessu góða fólki okkar bestu þakkir fyrir samfylgdina öll þessi ár. Við búum að reynslu þeirra og þekkingu. Það er þó ekki útséð með að þau komi til að leysa af í kennslu eða leysa hin og þess verkefni sem þau kunna svo vel.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |