Á útivistardegi skólans þann 26...
Á útivistardegi skólans þann 26.08.09 fór unglingastigið í
gönguferðir, gengið var yfir Tunguheiði, frá Vesturdal yfir í Ásbyrgi og frá Hólmatungum í Vestudal. Hérna má sjá umfjallanir um gönguferðirnar ásamt myndum úr ferðunum.
Tunguheiði
2009
Það er að verða föst hefð í Borgarhólsskóla að áttundi
bekkur gangi Tunguheiði á útivistardaginn. Núna var gengið miðvikudaginn 26. ágúst. Það var harðsnúið lið sem gekk að
þessu sinni. Óvenju mikil glaðværð ríkti í hópi nemenda enda veðrið sérlega gott. Lagt var af stað frá Syðritungu kl.
8:30 og gengið rólega og oft stoppað. Flestir reyndu að glöggva sig á nöfnum fjallanna sem mest ber á. (Húsavíkurfjall, Krubbsfjall,
Gyðuhnjúkur, Búrfell og Tungunúpur). Að venju fengu menn að fara í kapphlaup upp Skarðsbrekkuna og þegar upp var komið skipti Halldór
hópnum í tvennt. Stóran hraðferðarhóp og lítinn hægferðarhóp. Fyrri hópurinn var kominn að Fjöllum kl. 14:30 en sá
seinni kl. 16:00. Eins og í fyrri ferðum var áð tvisvar til að matast. Fyrst við ána og svo aftur neðan Gerðibrekku. Það vakti athygli
göngufólks að nú sáust nokkrir rjúpnahópar, en svo hefur ekki verið í fyrri ferðum. Almenn ánægja var með þessa
gönguferð en skemmtilegra hefði verið ef fleiri foreldrar hefðu verið með. Myndir má sjá hérna.
Gönguferðir unglinga haustið 2009
10. bekkur gekk úr Vesturdal í Ásbyrgi
Lagt var af stað með rútum frá Borgarhólsskóla kl.8:30 og komið í Vesturdal um kl.
9:30 þar sem nemendur úr Öxafjarðarskóla bættust í hópinn.
Veður var með besta móti og gekk ferðin í takt við það. Við lögðum upp frá
bílastæðinu við Hljóðakletta, fræddumst um tilurð þeirra og Jökulsárgljúfra ásamt öðru fróðlegu er
tengist svæðinu. Við skoðuðum að sjálfsögðu Tröllið, Kirkjuna og Rauðhóla á leið okkar meðfram
Jökulsárgljúfri, einnig fræddumst við um stuðlaberg og býkúpuveðrun sem er svo áberandi í Hljóðaklettum og skessukatlana
við Ásbyrgisbrún og ekki má gleyma þeim kenningum sem eru til um myndun Ásbyrgis. Síðan héldum við sem leið lá meðfram
Ásbyrgisbrún, niður kaðalinn í Tófugjá og rakleiðis út í Gljúfrastofu.
Við komum í Gljúfrastofu um kl. 15:00 og fengu þá allir sem vildu að fara í gegnum smá ratleik
um safnið (svara spruningum) til að vinna sér inn frí í náttúrufræði daginn eftir.
Nokkur bið var eftir rútum en það er eitthvað sem getur alltaf gerst og að sjálfsögðu tóku
allir því með þeirri yfirvegun sem lýsir af þessum krökkum J.
Þessa dagana eru tíundu bekkningar síðan að vinna í náttúrufræði með
Jarðfræði Jökulsárgljúfra þar sem nemendur afla sér upplýsinga um efnið og koma því frá sér á
veggspjöld. Myndir má sjá hérna.
Sigrún Þórólfsdóttir
Náttúrufræðikennari
Hólmatungur-Vesturdalur
Á útivistardegi í ár gekk 9. bekkur frá Hólmatungum í Vesturdal.
Alls var leiðin um 9 km. og fóru allir létt með gönguna. Við fengum leiðsögn Hjörleifs þjóðgarðsvarðar í Katlana í
upphafi ferðar en þar þarf að gæta sérstakrar varúðar þar sem áin hefur brotið svo mikið af berginu. Við horfðum yfir
að Vígabjargi og Hjörleifur sagði okkur frá því þegar Grettir skellti tveimur hrútum saman á hornunum, vippaði þeim yfir axlirnar
á sér og tiplaði yfir ána með þá. Við héldum síðan áfram og virtum fyrir okkur stórbrogið landslagið með
hinum miklu andstæðum. Nestisstopp var við Hólmárfossa en margir voru þá þegar komnir langleiðina með nestið sitt þar sem
rútuferðin hafði verið talsvert lengri en áætlað var! Við héldum síðan áfram sem leið lá eftir stikunum og
óðum ískalda Stallána við mikinn fögnuð krakkanna. Því næst skoðuðum við hellinn Gloppu, gengum áfram og áðum
næst þar sem við gátum virt Karl og Kerlingu fyrir okkur, tröllin sem dagaði uppi. Síðasta lotan var svo tekin í Vesturdalinn þar sem
rútan beið okkar. Þrír foreldrar voru með í för og eitt þeirra, Már Höskuldsson var að vanda iðinn með myndavélina og
má sjá frábærar myndir hans úr ferðinni hér. Óhætt að segja að
myndirnar tali sínu máli. Þessi leið er með fallegri gönguleiðum, stórbrotið landslag og miklar andstæður . Við hlökkum
því til að klára leiðina og fara úr Vesturdalnum og niður í Ásbyrgi að ári.