Þorrablót 8...Þorrablót 8. bekkjar í Borgarhólsskóla var haldið venju samkvæmt föstudaginn 6. febrúar. Nemendur höfðu dagana áður
unnið ötullega að undirbúningi, hannað og framleitt boðsmiða og aðgöngumiða, viðað að sér tónlist til að dansa við,
raðað upp borðum og skreytt Salinn.
Auk þess höfðu þeir stundað danskennslu hjá Halldóri skólastjóra. Undirbúningur gekk vel og
blótið sjálft þar af leiðandi vel heppnað. Hver nemandi bauð, hefðbundið, tveimur gestum og samanstóð gestahópurinn af ömmum,
mömmum, pöbbum og systrum. Á meðan borðhaldi stóð var boðið upp á skemmtiatriði. Fyrst reyndu foreldrar og nemendur með sér í
spurningakeppni og af sinni einstöku gestrisni leyfðu nemendur foreldrum að vinna. Því næst flutti hljómsveit nemenda tvö lög. Herlegheitin enduðu
svo á tveimur atriðum foreldra, sérstakri viðhafnarútgáfu af Öskubusku og svo skelltu þeir sér í eitt lag með ABBA. Samkomunni
lauk svo með dansleik. Fyrri hluta hans var stjórnað af Halldóri Valdimarssyni en þar buðu nemendur gestum sínum upp í dans og kenndu þeim
það sem þeir höfðu lært í danskennslunni. Seinni hlutinn einkenndist af frjálsari dansi, nýmóðins dansi eins og
skólastjóri kallaði hann. Þar með lauk ánægjulegri samverustund unglinga og fullorðinna.