Til forráðamanna nemenda Borgarhólsskóla

Nú þegar vorar er mikilvægt að ræða við nemendur um hættur í umferðinni og það gerum við í skólanum í samvinnu við lögregluna...
Nú þegar vorar er mikilvægt að ræða við nemendur um hættur í umferðinni og það gerum við í skólanum í samvinnu við lögregluna. Vert er að vekja athygli á endurskoðuðum skólareglum. Eftirfarandi grein um notkun hjóla stendur þar:
 
·         Við notum ekki hjól, hlaupahjól, hjólabretti eða línuskauta á leiksvæði skólans á skólatíma.
Á undanförnum árum hefur skólinn  ekki heimilað nemendum  í 1.-4. bekk að koma á hjólum í skólann. Við endurskoðun á þeirri reglu var ákveðið að láta landslög gilda um þetta atriði en höfða til ábyrgðar forráðamanna. 
Í samráði við lögreglu telja skólayfirvöld að yngstu nemendur ættu ekki að koma á hjólum í skólann nema í fylgd með fullorðnum.
 
Ef forráðamenn  yngstu nemenda leyfa nemendum að koma á hjólum í skólann þurfa hjólin að vera með góðan standara og lás því skólinn hefur ekki nema takmarkaðan fjölda hjólagrinda og aðstaða til þess að geyma hjólin á skólalóðinni er ekki góð eins og er.
Úr umferðarlögum:
 
40. gr. Barn yngra en 7 ára má eigi hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri.
Eigi má reiða farþega á reiðhjóli
. Þó má vanur hjólreiðamaður, sem náð hefur 15 ára aldri, reiða barn yngra en 7 ára, enda sé barninu ætlað sérstakt sæti og þannig um búið að því stafi eigi hætta af hjólteinunum.
Eigi má flytja á reiðhjóli þyngri hluti eða fyrirferðarmeiri en svo að ökumaður geti haft fullkomna stjórn á reiðhjólinu og gefið viðeigandi merki. Eigi má heldur flytja á reiðhjóli hluti, sem valdið geta öðrum vegfarendum óþægindum.
 
Vert er að vekja athygli forráðamanna á því að skólatöskur eru oft þungar og ekkert vit í því að nemendur flytji  þær með sér á hjólum.
 
Vil vekja athygli forráðamanna á því að með því að heimila nemendum að hjóla í skólann gildir það líka gagnvart milliferðum í sundlaugina nema um annað sé samið við umsjónarkennarann.  Nemendur 1. og 2. bekkjar fara gangandi með starfsmönnun skólans í sundlaug.
 
Á heimasíðunni:  http://www.us.is/id/1242 eru hagnýtar ábendingar til forráðamann t.d.:
 
  Sp.  Eru til einhverjar reglur sem banna börnum að vera á reiðhjólum á veturna þegar snjór er og hálka?

Sv. Nei, það eru ekki til neinar slíkar reglur. Aftur á móti setja margir grunnskólar þær reglur að börn eigi ekki að koma á hjólum í skólann yfir háveturinn. Þar þurfa foreldrar hins vegar að vera samstíga og hjálpa til við að stuðla að öryggi barna sinna. Hjólreiðar lítilla barna eru aðeins æskilegar að sumri til og reiðhjól á að geyma inni á veturna.

Sp. Hvenær er börnum óhætt að hjóla í almennri umferð?

Sv. Meginreglan er sú að börn eiga ekki að hjóla í umferð innan um bíla fyrr en þau eru orðin ellefu til tólf ára. Þá þarf einnig að hafa í huga andlegan og líkamlegan þroska þeirra. Mikilvægt er að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að hjóla aðeins á öruggum svæðum.
 
Frá lögreglunni á Húsavík.
 
„Lögreglan vill ítreka það við foreldra barna sem ætla að ferðast á reiðhjólum í skólann, að sjá til þess að reiðhjólin séu í lögmætu ástandi, hemlar séu í lagi, keðja og skiptingar séu rétt stilltar og strekktar og séu handhemlar,  þá ganga úr skugga um að þeir virki og barnið geti notað hemlana,  þeir séu ekki of stífir.  Liðka þarf upp hjólið eftir vetrargeymslu.  Einnig er mikilvægast af öllu að barnið fari ekki á hjólið án þess að nota reiðhjólahjálm, því slysin gera ekki boð á undan sér og hjálmur ver höfuðið sem er yfirleitt það fyrsta sem lendir í jörðinni  falli börnin af hjólinu.
Reglur hvað hjálmanotkun varðar eru afdráttarlausar.  Barn, undir 15 ára aldri,  má ekki hjóla á reiðhjóli án hlífðarhjálms.” 
 
Bestu kveðjur
Halldór Valdimarsson skólastjóri