Húsavik á fallegum vetrardegi
Kæru íbúar
(in your language in Google translate at top of page, right side)
Stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins hefur lagt sig fram við það nú um helgina að undirbúa viðbrögð við samkomubanninu sem tekur gildi nú á miðnætti, vegna Covid-19. Það er rétt að minnast á það hér strax í upphafi hve ánægjulegt er að finna ríkulega fyrir samheldni og einhug sem ríkir um að leysa verkefni næstu vikna af festu, ábyrgð og yfirvegun.
Ljóst er að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda um samkomubann. Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta skollið á með stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða einingum sem við á.
Allir íbúar eru hvattir til að leita almennra upplýsinga um faraldurinn og viðbrögð við honum inni á www.covid.is – þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem gilda næstu fjórar vikurnar.
Helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið í Norðurþingi nú þegar eru eftirfarandi:
- Leikskólinn Grænuvellir verður opinn á hefðbundnum tíma næstu fjórar vikur eftir því sem aðstæður leyfa, en starfsemi og leikskólahaldið sjálft verður með öðru sniði sem kynnt verður fyrir foreldrum eftir starfsdag með starfsfólki á morgun, mánudaginn 16. mars.
- Grunnskólar verða opnir.
- Skólahald í Borgarhólsskóla verður frá 8:15 – 12 á hádegi, en mötuneyti lokað og ávaxtastund lögð af. Nemendur mæti með nesti.
- Skólahald í Öxarfjarðarskóla og Grunnskóla Raufarhafnar fer fram á hefðbundnum tíma
- Ítarlegar upplýsingar um þær breytingar á skólastarfi sem gripið verður til verða kynntar foreldrum og forráðamönnum að starfsdegi morgundagsins afloknum.
- Tónlistarkennsla mun skerðast og útfærsla skólahalds þar kynnt á morgun, mánudag.
- Frístundaheimilið Tún verður lokað, en foreldrar barna í 1. og 2. bekk sem starfa innan heilbrigðiskerfisins, hjá almannavörnum og leikskólanum Grænuvöllum geta sótt um undanþágu hjá forstöðumanni – kristinn@nordurthing.is
- Félagsþjónusta á vegum Norðurþings verður skert næstu fjórar vikurnar með eftirfarandi hætti. Miðjan verður lokuð. Félagsstarf hjá eldri borgurum fellur niður. Skammtímadvöl barna verður lokuð. Skert starfsemi verður hjá heimaþjónustu. Skjólstæðingar félagsþjónustunnar eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn til að fá frekari upplýsingar um þá starfsemi sem þeir þurfa á að halda.
- Íþróttahöllin á Húsavík verður lokuð í óákveðinn tíma.
- Sundlaug Húsavíkur verður opin á hefðbundnum tímum, en þó með skertri þjónustu eins og lokun gufubaða og kaldra potta. Fjöldatakmarkanir verða með þeim hætti að aldrei verður fleiri en 20 einstaklingum heimilt að vera í byggingunni á sama tíma.
- Skíðasvæði verður opið eins og mögulegt er. Skíðaskáli lokaður nema í neyðartilvikum.
- Vodafonevölllurinn á Húsavík: búningsklefar verða lokaðir um óákveðinn tíma.
- Sama ákvæði um fjöldatakmarkanir og í Sundlaug Húsavíkur gildir um íþróttamannvirki á Kópaskeri og Raufarhöfn, þ.e. að aldrei verði fleiri en 20 einstaklingar samankomnir í byggingunum á sama tíma.
- Tilmæli eru til allra íþrótta- og tómstundafélaga í Norðurþingi að fella niður skipulagt starf fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri um óákveðinn tíma frá og með samkomubanni.
Á morgun mánudag munu foreldrar og forráðamenn skólabarna fá ítarlegar upplýsingar frá skólastjórnendum um breytingar á skólastarfinu næstu fjórar vikurnar. Þess er óskað að allir fylgist vel með tilkynningum frá skólunum á morgun um það hvernig tekið verður á móti börnum á þriðjudag.
Nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum covid-19 faraldurinn. Gleymum ekki brosinu, sýnum umburðarlyndi og verum eins hvetjandi og við getum í þessum fordæmalausu aðstæðum.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri