Tunguheiði gengin 15. september 2006

Slakað á við vörðuna
Slakað á við vörðuna
Í Borgarhólsskóla er að skapast sú hefð að áttundi bekkur gangi Tunguheiði að hausti...
Í Borgarhólsskóla er að skapast sú hefð að áttundi bekkur gangi Tunguheiði að hausti. Í fyrra viðraði þannig allt haustið að heiðin var nánast ófær sakir bleytu. Var því ekki gengið þá en nú gengu bæði áttundi og níundi bekkur.
Föstudagurinn 15. september varð fyrir valinu sem göngudagur þetta haustið. Svo óheppilega vildi til að sama dag var fótboltamót á Akureyri þannig að 16 drengir komust ekki í gönguna.
Upp úr klukkan átta þann dag söfnuðust nemendur, kennarar og foreldrar saman í bíla Rúnars Óskarssonar sem fluttu hópinn að Syðritungu. Þar hófst gangan með góðu leyfi Árna Grímseyings.
Er upp úr túninu kom var gengið eftir allgreiðfærum slóða þar til komið var undir Tungunúp. Þar var áð við lækjarsprænur þannig að þyrstir gátu svalað þorsta sínum og allir fyllt flöskur vatni. Nesti maulað úr mal.
Gekk nú hópurinn glaður og hress allt að Skarðsbrekku og upp hana. Hvíld við vörðuna.
Nú tók að lægja þann vind sem nokkur var og gengið án vandræða yfir Biskupsás allt niður fyrir Gerðibrekku þar sem áð var og seinni hluti nestisins hesthúsaður.
Með Sauðafell á hægri hönd, Gerðibrekku á þá vinstri og útsýni til Fjalla er ólýsanlegt.
Nú var gengið til Fjalla með stuttum stoppum. Lásu sumir ber af lyngi því þetta svæði er gott berjaland.
Þegar komið var á Nónhæð skrifuðu flestir í gestabók sem þar er geymd í plastkassa.
Þegar komið var að Fjöllum var Rúnar bílstjóri þar kominn fyrir dágóðri stundu með bíla sína. Gangan hafði tekið ögn lengri tíma en áætlað var. Sennilega hefur hópurinn áð oftar og lengur en gert var í fyrri ferðum enda bauð veðrið upp á það.
Þegar komið var til Húsavíkur var klukkan farin að halla í fimm.
Þess skal að lokum getið að nemendahópurinn sem gekk Tunguheiði að þessu sinni var sérstaklega meðfærilegur. Enginn sem hljóp á undan eða hegðaði sér undarlega á annan hátt.
G.H.F.
 

Athugasemdir