- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Nám og kennsla er gjarnan með óhefðbundnu sniði í aðdraganda jóla. Nemendur vinna með kostnað við jólin, syngja jólalögin, svara getraunum, föndra hvers konar jólaskraut og lita jólamyndir og margt fleira.
Venju samkvæmt fóru nemendur sjöunda bekkjar upp í skógrækt að sækja jólatré skólans ásamt garðyrkjustjóra. Þeir fengu kakó og piparkökur sem nemendur sjötta bekkjar höfðu undirbúið. Nemendur tíunda bekkjar skreyta svo tréð sem prýðir sal skólans á Litlu jólum.
Allir nemendur skólans hafa farið á söngsal einu sinni eða oftar og sungið jólalögin. Nemendur tóku vel undir svo undir tók í salnum. Í öllum bekkjum er jólagetraun með einhverju sniði. Nemendur í fyrsta til þriðja bekkjar tóku þátt í umferðargetraun og nemendur í fjórða til sjöunda bekk tóku þátt í húsagetraun. Getraunirnar fóru heim til að foreldrar gætu átt stund með börnum sínum við að leysa getraunina. Dregnir voru tveir einstaklingar í hverjum árgangi sem hlutu 5000 kr. verðlaunafé í boði Landsbanka Íslands. Nemendur í áttunda til tíunda bekk fengu tólf spurningar fyrir jólin, ein á dag. Að lokum voru þrír nemendur með tíu svör rétt og drógu um vinning. Víkurraf gaf vinning í fyrsta sæti, Viðbót í annað sæti og Skóbúð Húsavíkur í það þriðja.
Nemendur í sjötta og sjöunda bekk hafa unnið að skemmtilegu verkefni varðandi kostnað við jólin. Nemendur bjuggu til ímyndaðar fjölskyldur og þurfa að ákveða hvað hún ætlar að snæða á aðfagnadagskvöld og hver gefur hverjum að gjöf. Sömuleiðis þarf að skreyta og því þarf að kaupa jólaskraut. Nemendur fengu frjálsar hendur varðandi kostnað en kostnaðarsömustu jólin voru metin á 11.401.279 kr. Þar gáfu fjölskyldumeðlimir hver öðrum ansi dýrar gjafir eins og bíl. Kostnaðarminnstu jólin voru metin á 134.230 kr. Hinsvegar var snjallsími ansi algeng jólagjöf til handa unglingum. Nemendur opnuðu sýningu með verkum sínum og var foreldrum sérstaklega boðið. Sýningin var reglulega vel heppnuð og sömuleiðis vel sótt.
Nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk störfuðu í hvers konar smiðjum og föndruðu jólakrukkur, spiluðu félagsvist o.fl. Norðlenska gaf verðlaun í vistinni. Haldið var lítið jólagömludansiball, farið í jólagöngutúr og grillaðir sykurpúðar og pylsur til að brjóta upp daginn.
Í dag áttu allir nemendur samverustund í sínum stofum áður en haldið var á Litlujólaball. Jólasveinarnir úr Dimmuborgum kíktu í heimsókn, sprelluðu og dönsuðu svo kringum tréð með nemendum. Stórsveit Tónlistarskóla Húsavíkur lék fyrir dansi af krafi og fimi. En hana skipa nemendur á öllum aldri ásamt tónlistarkennurum.
Eftir Heims um ból óskaði skólastjóri nemendum gleðilegra jóla með þökk fyrir árið 2017. Að því loknu héldu nemendur út í jólafrí.
Fleiri myndir frá sjá HÉR.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |