- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Það er komið að tímamótum með vonum og væntingum. Skólastarfið að hefjast. Þórgunnur Reykjalín skólastjóri bauð nemendur, foreldra og starfsfólk velkomið til starfa í dag. Sérstaklega nýja nemendur og foreldra við skólann og þá sem eru að hefja skólagöngu í fyrsta bekk.
Nemendur hittu umsjónarkennara sína ásamt foreldrum sínum og fengu nauðsynleg gögn. Það er að ýmsu að hyggja í upphafi skólaárs og margt sem skýrist á fyrstu dögum skólans. Skólastjóri hvatti foreldra til að kíkja reglulega á heimasíðu skólans, hafa samband í skólann og kíkja í heimsókn.
Starfsfólk skólans telur 60 manns og nemendur eru skráðir 274 í upphafi skólaársins.
Nokkur breyting hefur orðið í starfsliði skólans en nýtt starfsfólk er; Anna Björg Pálsdóttir og Jóna Björk Gunnarsdóttir sem kenna íþróttir, Kristín Helgadóttir kennari í teymi 6. 7. b., Þorbjörg Arna Unnsteinsdóttir kennari í teymi 2. 3. bekk, Herdís Sigurðardóttir íslenskukennari í teymi 8. 10. b., Berglind Hauksdóttir sem sinnir kennslu í teymi 6.-7. b. og Jóna Björg Pálmadóttir stuðningsfulltrúi.
Skólastjóri gerði kurteisi og virðingu að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni. Allir sem koma að skólasamfélaginu þurfa að búa til þau skilyrði að allir fái notið sín og hafi tækifæri til að þroskast og dafna hver á sínum forsendum. Því allt er hægt ef allir standa saman með samvinnu að leiðarljósi.
Sömuleiðis gerði skólastjóri endurvakningu Foreldrafélags Borgarhólsskóla að umtalsefni.
Í skólanum er mikill metnaður til að gera vel og væntingar á lofti meðal nemenda og foreldra. Skólastjóri vænti þess af öllum þeim sem koma að skólasamfélaginu að þeir rækti með sér virðingu og kurteisi, að bjóða góðan daginn sem er einföld leið til að sýna virðingu. Að skoðanir allra séu virtar, að við hlustum og umfram allt að sýna því skilning að við erum ólík. En virðing felst jafnframt í því að þekkja kosti sína og galla, að leggja sig allan fram og sýna okkur sjálfum virðingu. Það eru allir svo magnaðir.
Skólastjóri hvatti foreldra til að ganga með börnum sínum í skólann; að velja saman skynsamlegustu leiðina. Einnig hvatti hann foreldra til að nota bílastæði norðan við skóla, milli skólans og hótels, sem stoppistöð til að hleypa börnum sínum út séu þeir akandi.
Að lokinni ræðu skólastjóra gengu nemendur, starfsfólk og foreldrar saman inn í skólann enda svali í lofti og léttur úði. Skólastarf hefst svo samkvæmt stundatöflu á morgun, fimmtudag en fyrstu dagana má gera ráð fyrir uppbroti á hefðbundinni kennslu. Mötuneyti hefst sömuleiðis á morgun og þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um morgunverðarstund með hafragraut og ávöxtum verður þeim miðlar til nemenda og foreldra.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |