- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Sólin skín og íslenski fáninn blaktir við hún. Það er komið að tímamótum með vonum og væntingum. Skólastarfið að hefjast. Þórgunnur Reykjalín skólastjóri bauð nemendur, foreldra og starfsfólk velkomið til starfa í dag á sal skólans að morgni dags. Sérstaklega bauð hún nýja nemendur og foreldra við skólann velkomna og þá sem eru að hefja skólagöngu í fyrsta bekk.
Nemendur hittu umsjónarkennara sína ásamt foreldrum sínum og fengu nauðsynleg gögn. Það er að ýmsu að hyggja í upphafi skólaárs og margt sem skýrist á fyrstu dögum skólans. Skólastjóri hvatti foreldra til að kíkja reglulega á heimasíðu skólans, hafa samband í skólann og kíkja í heimsókn. Að lokinni formlegri setningu var foreldrum boðið í kaffi og smá góðgæti á kaffistofu.
Starfsfólk skólans telur 65 manns og nemendur eru skráðir 289 í upphafi skólaársins sem er fjölgun um 5,2% frá fyrra skólaári. Þá fjölgar nemendum með annað móðurmál en íslensku.
Nokkur breyting hefur orðið í starfsliði skólans en nýtt starfsfólk er; Nanna Þ. Möller, umsjónarkennari í teymi 8. – 10. b. Freyþór Hrafn Harðarson og Guðmundur Óli Steingrímsson sem kenna íþróttir. Ásgerður Heba Aðalsteinsdóttir, Óskar Páll Davíðsson, Sigurður Már Vilhjálmsson og Tinna Ósk Óskarsdóttir sem stuðningsfulltrúar. Arnór Heiðmann Aðalsteinsson er kennaranemi við skólann.
Skólastjóri gerði þakklæti að sérstöku umtalsefni. Margir hafa beðið lengi eftir að skólinn hefjist en svo þurfi að hafa í huga þá einstaklinga sem kvíða fyrir í upphafi skólaárs. Við þurfum öll að passa að enginn sé einn og muna að taka alla með í leik og störf. Skólinn á að vera öruggur staður fyrir alla til að æfa sig í lífsins færni. Ekki bara í lestri, skrift eða stærðfræði heldur í samskiptum, tillitssemi, samningum í frímínútum, í hópavinnu og samveru almennt í skólanum. Í slíkum æfingum fylgja alltaf einhverjir árekstrar sem er eðlilegt. Starfsfólk skólans aðstoðar nemendur og við lærum öll af mistökum og beitum Jákvæðum aga. Við eigum alltaf að reyna að gera okkar besta í leik og starfi.
Skólastjóri fór yfir nýjar reglur um farsímanotkun sem má finna á heimsíðu skólans, sjá einnig HÉR. Kennarar í eldri bekkjum gerðu reglurnar að umtalsefni meðal nemenda að lokinni formlegri setningu skólans. En að lokinni setningu fóru nemendur á sín vinnusvæði og fylgdu margir foreldrar börnum sínum eftir, spjölluðu á ganginum og áttu notalega stund í skólanum.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |