Útikennsla í Borgarhólsskóla vor 2009

Núna á vordögum hafa nemendur Borgarhólsskóla notið vorblíðunnar við útinám í ýmsum greinum...
Núna á vordögum hafa nemendur Borgarhólsskóla notið vorblíðunnar við útinám í ýmsum greinum. Hefur það verið markviss stefna skólans að auka útikennslu og með því að taka eitt skref í einu er að líta dagsins ljós nokkuð markviss útikennsla.
Það má kannski fyrst nefna heimilisfræðina, en Ingólfur Jónsson hefur verið iðinn við kolin og krakkarnir fengið að elda dýrindis mat á útieldstæði skólans.

Margir kennarar hafa einnig notað tækifærið og farið með nemendur út í náttúruna til að skoða dýr og gróður eða umhverfi skólans og á skólalóðinni sjást nemendur mæla eða telja og reikna út ótrúlegustu hluti.

Myndir

Ég má til með að benda á að inni í miðri skógræktinni í Melnum hér ofan við skólann er bærinn, með Jan í fararbroddi, búinn að útbúa ekta skógarrjóður með eldstæði og fínheitum. Nú er bara að ganga vel um svo við fáum að nýta þetta í framtíðinni.
Fimmtu bekkingar fóru í Hvalaskólann, fóru á sjó og skoðuðu lífríki flóans með áherslu á hvalina og hvað hann étur. Þeir heimsóttu einnig Hvalasafnið og unnu úr sýnum í stofunni sinni.
Tíundu bekkningar fengu að velja sér lokaverkefni við skólann í vor og var útinámið lang- vinsælast. Flestir fóru í fuglaskoðun, nokkrir að veiða og kryfja fisk og tveir völdu að veiða smádýr í gildrur og greina þau til tegunda. Allir hópar skiluðu síðan ýtarlegri skýrslu í lokin.
Segja má að margar skólastofurnar hafi breyst í hálfgerð vísindsetur þar sem nemendur hafa safnað sýnum, ýmist lifandi eða látnum til frekari greiningar. Þeir hafa veitt smádýr í Búðaránni, fisk í sjónum, orma og flugur á skólalóðinni eða pöddur í fjallinu og á gróðursælum stöðum hér í kring. Nemendur hafa einnig skoðað fjöruna og fylgst með náttúrunni vakna bæði með heimsóknum út og með tilbúnum vistkerfum í þar til gerðum búrum.
Einnig hafa bekkir tekið þátt í ýmsum leikjum og keppnum sín á milli. Það bæði þjappar þeim saman og kennir þeim að taka tillit til hvers annars og takast á við ágreining sem oft kemur upp þegar keppni er annars vegar.
Það má með sanni segja að ég hlakka til að sjá útikennsluna þróast hér við skólann í framtíðinni. Með útikennslu er ekki átt við að nemendur séu úti allan daginn, heldur fari út og nýti náttúruna og umhverfið til að auðga sitt nám, jafnvel bara að sækja sér innblástur eða sýni.
Sigrún Þórólfsdóttir,
náttúrufræðikennari