Útskrift úr grunnskóla - til hamingju

Nemendur tíunda bekkjar kvöddu skólann sinn í dag eftir tíu ára skólagöngu með skólaskírteini í hönd. Hvert og eitt heldur sína leið með eigin markmið og stefnu í lífinu. Skólinn óskar nemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju og velfarnaðar á lífsins leið.

Kolbrún Ada, staðgengill skólastjóra kvaddi nemendur og fór stuttlega yfir skólagönguna síðastliðin ár. Árgangurinn sem nú útskrifast var á miklum mótunarárum þegar covid-19 heimsfaraldur skall á heimsbyggðinni. Eftir sem áður risu nemendur upp og ljúka skólagöngu sinni með sóma. Nú tekur við nýr kafli, spennandi og krefjandi tækifæri bíða.

Kolbrún Ada hvatti nemendur til að skara alltaf fram úr, koma fram við aðra af virðingu og góðvild og gefast aldrei upp á eigin draumum. Veröldin þarfnist hæfileika komandi kynslóða með sköpun og ástríðu að leiðarljósi. Hver er sinnar gæfusmiður og að framtíðin væri nemendanna sjálfra. Hún sagði m.a. að það fælist heilmikið nám í því að setja upp leiksýningar, taka þátt í fjáröflunum, skipuleggja viðburði, koma fram, stýra tæknimálum. Sömuleiðis að nemendur hefðu þurft að takast á við allskyns breytingar á sinni skólagöngu og náð að aðlaga sig að breyttum tímum.

Elísabet Ingvarsdóttir og Hildur Gauja Svavarsdóttir, fluttu ræðu og þakkarorð sem fulltrúar nemenda. Þær sögðu að nemendur myndu sakna skólans og þess sem hann hefur upp á að bjóða. Jafnframt að hópurinn hafi styrkst og eflst í tíunda bekk. Mörg hafi farið út fyrir þægindarammann sinn og staðið undir því. Þær Brynja Rós Brynjarsdóttir og Hrefna Ósk Davíðsdóttir fluttu lagið I´ll always rembeber you sem var við hæfi á útskriftardegi úr grunnskóla.

Nemendur fengu loks vitnisburð og útskriftarskírteini. Þar birtist námsmat í ýmsum kennslugreinum. Þar birtist ekki mat á kærleika, umburðarlyndi eða annarri færni og hæfni sem þarf í daglegu starfi og tilveru um ókomna tíð.

Að lokinni athöfn var boðið upp á hressingu og jafnframt tekin mynd í stiganum venju samkvæmt.

Við óskum útskriftarnemendum og fjölskyldum aftur til hamingju með daginn og áfangann. Haldið út í heiminn með bros á vör. Ykkar er framtíðin. Gangi ykkur vel.


Athugasemdir