- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Þessa dagana vinna nemendur 10. bekkjar að stóru vistfræðiverkefni. Nemendum var skipt í hópa og fengu þeir fyrirmæli um að hanna sitt eigið vistkerfi. Nemendur fengu nokkuð frjálsar hendur varðandi útlit á vistkerfinu og úr hvaða efni það ætti að vera. Hóparnir urðu sér úti um plastkassa, viðarplötur og pappakassa til að nota sem grunn í vistkerfið sitt.
Í hverju vistkerfi skulu vera að lágmarki 20 lífverur, sem hugsanlega gætu lifað saman. Nemendur þurfa m.a. að hafa í huga að næg fæða sé fyrir alla og að það sé búsvæði fyrir hverja tegund. Einn hópur vill reyna að hanna vistkerfi þar sem risaeðlur gætu lifað en aðrir hópar reyna að gera líkan af raunverulegum stöðum, eins og t.d. Skjálfandaflóa.
Lokaafurð er vistkerfið sjálft auk þess upplýsingar um sex til átta lífverur þar sem kemur fram hvað þær éta, hvort þær eru étnar af öðrum lífverum, í hverskonar samkeppni þær eru o.þ.h. Einnig skila nemendur minnisblaði með fæðuvef fyrir allt vistkerfið.
Markmið verkefnisins er að nemendur kynnist því út á hvað fræðigreinin vistfræði gengur og læri nokkur hugtök vistfræðinnar. Verkefnið þjálfar nemendur í að vinna saman í hóp, að skipta verkum og síðast en ekki síst að nota veraldarvefinn til að finna upplýsingar.
Að þessu verkefni loknu munu nemendur fjalla um vistfræði í tengslum við ágang mannsins á Jörðina og nýtingu auðlinda. Á 200.000 árum hefur mannkynið raskað hinu viðkvæma jafnvægi sem Jörðin hafði búið við í fjóra milljarða ára. Mannkyn hefur teflt afkomu sinni í hættu með því að stuðla að hlýnun jarðar, ofnýtingu auðlinda og ofveiðum.
Nemendur horfa á kvikmyndina HOME sem kom út árið 2009, sem má finna HÉR á youtube. Myndin fjallar á einstaklega lifandi hátt um þær breytingar sem eru að verða á Jörðinni okkar. Myndefnið er að mestu úr lofti og sýnd stórbrotin og falleg svæði á um 120 stöðum í heiminum. Viðfangsefnið er þannig að fólk almennt skilur hvað um er fjallað. Í myndinni gefst einstakt tækifæri til að skoða frábæra náttúru og skilja Jörðina okkar betur. Að því loknu skila nemendur skýrslu um málið.
Vistfræðin nær bæði yfir náttúru- & þjóðfélagsfræði.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |