Haustönn lýkur þriðjudaginn 15...
Haustönn lýkur þriðjudaginn 15. janúar með einkasamtali
foreldra/forráðamanna, kennara og nemenda. Nemendur fá í samtalinu skriflega umsögn um árangur á hinum ýmsu sviðum
skólastarfsins. Rannsóknir sýna að framfarir verða meiri ef allir aðilar setja sér sameiginleg markmið og fylgja þeim eftir. Uppbyggjandi og
hreinskilin samvinna heimilis og skóla er því mikilvæg forsenda góðs skólastarfs. Munum að námsmatið á að vera
hvetjandi, þarf að vera stöðugt og er aldrei lokadómur.
Nú með hækkandi sól er skynsamlegt að setja raunhæf námsmarkmið fyrir
vorönnina fyrir hvern og einn. Í samtalinu verður rætt um heppilegar leiðir að þeim markmiðum.
Í upphafi vorannar boða umsjónarkennarar forráðamenn til hópfunda um
sameiginleg markmið bekkjanna . Áform vorannar og kennsluáætlanir verða kynntar, foreldrum gefst tækifæri til að ræða
sameiginleg mál. Mikilvægt að forráðamenn mæti vel til funda og skipuleggi með foreldrafulltrúum og umsjónarkennurum hvernig best er staðið
að því að styrkja félagsheildina. Þátttaka í foreldrastarfi á ekki að vera áþján heldur skemmtileg og
mannbætandi fyrir alla. Með því hugarfari þurfa menn að mæta til leiks.
Óskum þess að okkur farnist sameiginlega að leiða nemendur okkar til aukins
þroska á sem flestum sviðum.
Skólastjórnendur