Yfirlýsing vegna trúnaðarupplýsinga

Laust fyrir hádegið í dag komst upp um alvarlega villu í aðgangsstýringu tölvukerfis Borgarhólsskóla. Trúnaðarupplýsingar sem geymdar eru á lokuðum drifum urðu aðgengilegar nemendum í gærmorgun, vegna mistaka tölvuþjónustufyrirækis við yfirfærslu gagna í svokallað „ský“.

Laust fyrir hádegið í dag komst upp um alvarlega villu í aðgangsstýringu tölvukerfis Borgarhólsskóla. Trúnaðarupplýsingar sem geymdar eru á lokuðum drifum urðu aðgengilegar nemendum í gærmorgun, vegna mistaka tölvuþjónustufyrirækis við yfirfærslu gagna í svokallað „ský“.

Strax og komst upp um málið var lokað á allan aðgang að tölvukerfi skólans um hádegisbilið í dag og það verður ekki opnað fyrr en tryggt verður að aðgangsstýringin hafi verið lagfærð að fullu. Nemendur munu því ekki hafa rafrænan aðgang gegnum tölvur skólans í það minnsta á morgun, föstudag. Unnið er að því að greina umfang tjónsins sem þessi alvarlegu mistök ollu.

Starfsfólk skólans og stjórnendur Norðurþings harma mjög þennan alvarlega atburð og beina því til allra sem mögulega hafa í fórum sínum trúnaðarupplýsingar skólans eða vita af slíkum upplýsingum í dreifingu, að öll slík dreifing er skýrt lögbrot sem og munnleg umfjöllun um þær. Skólastjóri ásamt stjórnendum sveitarfélagsins hafa gripið til viðeigandi ráðstafana, meðal annars með því að tilkynna atvikið til Persónuverndar og lögreglu. Forsvarsmenn skólans munu upplýsa um framgang mála eftir því sem staðan skýrist.

Virðingarfyllst,

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, skólastjóri

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri