Árshátíð Borgarhólsskóla

Árshátíð Borgarhólsskóla var haldin með pompi og prakt föstudaginn 9...
Árshátíð Borgarhólsskóla var haldin með pompi og prakt föstudaginn 9. nóvember. Gjaldgengir á árshátíðina eru nemendur 8. – 10. bekkjar auk starfsfólks skólans. Góð þátttaka var að venju, 128 manns mættir í sínu fínasta, þar af 22 starfsmenn. Allur undirbúningur og framkvæmd var í höndum árshátíðarnefndar nemenda en hana skipuðu þetta árið þau Fannar, Íris, Þuríður og Tandri úr 10. bekk og Friðrik og Sigrún Lilja úr 9. bekk. Unnar Þór íþróttakennari og sérlegur félagsmálamógúll skólans var þeim svo innan handar. Að venju naut árshátíðarnefndin þess munaðar að hafa Erling nokkurn Þorgrímsson sér innan handar við ljósagæslu og reykmyndun svo eitthvað sé nefnt.
Hátíðin hófst með borðhaldi þar sem framreiddur var matur frá Sölku, Pottréttur, pizzur og pasta. Í kjölfarið fylgdu skemmtiatriði bekkjanna og nokkuð hefðbundið atriði frá starfsfólki. Að því loknu voru veittar hinar ýmsu viðurkenningar undir liðnum stjörnumessa. Sem dæmi voru veittar viðurkenningar fyrir mestu klósettgelgjuna, systkini ársins, hávaðasamasta nemandann o.fl. o.fl. Herlegheitunum lauk svo með dansi þar sem DJ Andri Ramirez reiddi fram tónlistina. Hátíðin heppnaðist að venju vel og var okkar fólk unglingum til mikils sóma.
Bragur starfsfólks, samið af hirðskáldi skólans, Huddersfield, sungið við Vegbúa KK
Ég reyni að kenna
krökkunum hér.
Þeir aldrei nenna
að læra hjá mér.
 
Þeir les´ekki heima
Það ódæla stóð
sem fer sína eigin
ótroðnu slóð.
 
Nemandi sestu mér hjá
ég segi þér sögur
ég segi þér frá.
Þú áttir von nú er vonin farin á brott
fallinn í vor – hum – hum – hum – hum.
Stolið og sílfært af Huddersfield
JH

Athugasemdir